Ökumaðurinn yfirheyrður

Lögreglumenn við Hotel Bergheim 41 í borginni Heidelberg sem er …
Lögreglumenn við Hotel Bergheim 41 í borginni Heidelberg sem er skammt frá staðnum þar sem ökumaðurinn ók á gangandi vegfarendur. AFP

Þýska lögreglan rannsakar nú hvers vegna 35 ára gamall þýskur námsmaður ók bifreið á hóp vegfarenda í borginni Heidelberg í gær með þeim afleiðingum að einn lést og tveir slösuðust. Lögreglan segir að þetta hafi ekki verið hryðjuverkaárás.

Maðurinn er nú í haldi lögreglu grunaður um manndráp og tilraunir til manndráps. Hann reyndi að komast undan lögreglu á hlaupum en lögreglan hóf skothríð og særði hann. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir aðgerð. 

Sjötíu og þriggja ára gamall þýskur karlmaður lést eftir að hafa orðið fyrir bifreið mannsins í gær. Tvennt slasaðist minni háttar, eða 32 ára gamall Austurríkismaður og 29 ára gömul kona frá Bosníu. Fjórði maðurinn náði að forða sér áður og slapp því án meiðsla. 

Margir hafa lagt blóm og kerti við gangstéttina þar sem …
Margir hafa lagt blóm og kerti við gangstéttina þar sem atvikið átti sér stað. AFP

Rannsóknarlögreglumenn yfirheyrðu ökumanninn í fyrsta sinn í dag en hann er að jafna sig eftir aðgerðina. Lögreglan tjáir sig ekki um það sem maðurinn sagði við yfirheyrsluna, annað en að ekki liggi fyrir hvers vegna maðurinn gerði þetta. Ekki liggur því fyrir hvort um slys hafi verið að ræða eða hvort maðurinn hafi ekið á fólkið vísvitandi.

Fram kemur í þýskum fjölmiðlum að talið sé að maðurinn hafi glímt við geðræn vandamál. Lögreglan hefur aftur á móti ekki viljað tjá sig um þann fréttaflutning. 

Hún tekur hins vegar fram að hún hafi útlokað hryðjuverk. 

Tæknideild lögreglunnar sést hér rannsaka vettvanginn.
Tæknideild lögreglunnar sést hér rannsaka vettvanginn. AFP

Vegfarandi tók myndskeið af því þegar fjölmargir vopnaðir lögreglumenn höfðu afskipti af manninum. Í yfirlýsingu lögreglu segir, að einn lögreglumannanna hafi skotið manninn eftir að hann neitaði að leggja frá sér hníf sem hann hélt á og hljóp í áttina að lögreglumönnunum. Lögreglan segir að lögreglumennirnir hafi í fyrstu reynt að yfirbuga hann með piparúða án árangurs. 

Lögreglan segir að maðurinn hafi ekki komið við sögu lögreglu áður. Hann er frá Heidelberg og leigði bifreiðina hjá bílaleigu fyrir um það bil hálfum mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert