Sköllóttur morðingi hafði betur í hárkollumáli

Hárkolla, mynd úr safni þar sem AFP er ekki með …
Hárkolla, mynd úr safni þar sem AFP er ekki með mynd af morðingjanum í myndasafni sínu. Wikipedia/Kaede

Dæmdur morðingi og barnaníðingur hafði betur gegn fangelsismálayfirvöldum fyrir dómi í Nýja-Sjálandi í dag. Féllst dómarinn á að fangelsisyfirvöld hafi brotið á rétti fangans með því að taka af honum hárkollu sem hann notaði til þess að dulbúast er hann flúði úr landi.

Phillip John Smith flúði til Brasilíu í nóvember 2014 er hann var í stuttu leyfi úr fangelsi í Auckland. Smith var með hárkollu á höfðinu sem hann hafði fengið heimild til þess að ganga með tveimur árum fyrr. Hárkolluna hafði fanginn, sem er sköllóttur, fengið heimild til þess að nota til að auka sjálfstraust sitt. 

Þegar hann náðist þremur vikum síðar og var framseldur til Nýja-Sjálands var hárkollan tekin af Smith og birtu fjölmiðlar myndir af skalla fangans þegar hann var leiddur fyrir dómara.

Smith sagði fyrir dómi fyrr í mánuðinum að hann hafi verið smánaður og lítillækkaður með því að taka af honum hárkolluna. 

Smith var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 1996 fyrir að hafa beitt dreng kynferðislegu ofbeldi í þrjú ár og þegar fjölskylda drengsins flúði með hann til annarrar borgar elti hann þau uppi. Smith braust inn á heimili fjölskyldunnar og stakk föður drengsins til bana er hann reyndi að verja 13 ára gamlan son sinn. Smith var 21 árs þegar hann framdi morðið en hann var 17 ára þegar hann hóf að beita drenginn kynferðislegu ofbeldi.

Morðinginn, sem er 42 ára gamall, sagði við réttarhöldin nú að hárkollan skipti hann miklu máli og sé liður í endurhæfingu hans. Smith segist vera afar viðkvæmur vegna hárleysisins. 

Dómarinn, Edwin Wylie, féllst á sjónarmið Smiths og að brotið hafi verið á réttindum hans með því að taka af honum hárkolluna. Með þessu hafi verið brotið á grundvallarmannréttindum hans, tjáningarfrelsinu. 

Lögmaður fórnarlamba Smiths, Ruth Money, segir að málið sé til skammar fyrir Nýja-Sjáland og hún hafi enga samúð með Smith. Ekkert frekar en hann hafi sýnt fórnarlömbum sínum samúð. 

Dómarinn segir að tjáningarfrelsið geti falist í líkamlegri tjáningu, svo sem að ganga með hárkollu og að Smith eigi ekki að glata mannréttindum sínum við að vera dæmdur í fangelsi. Wylie hafnaði aftur á móti kröfu Smiths um að fá greiddar skaðabætur.

Myndir af fanganum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert