Björguðu 16 ára stúlku úr hjónabandi

Skólafélagar stúlkunnar sóttu hana heim til eigimannsins.
Skólafélagar stúlkunnar sóttu hana heim til eigimannsins. AFP

Skólafélagar 16 ára gamallar indverskrar stúlku, sem hafði verið gift miklu eldri manni af foreldrum sínum, leituðu hana uppi á dögunum og björguðu henni af heimili hans. Stúlkan hefur nú snúið aftur í skóla í Rajasthan héraði á Indlandi þar sem hún stundar námið af kappi.

Það var í maí síðastliðnum sem foreldrar stúlkunnar neyddu hana til að hætta í skóla til að flytja í nálægt þorp þar sem hún átti að búa með eiginmanninum og fjölskyldu hans. Skólafélagar stúlkunnar sættu sig ekki við þennan ráðhag, höfðu uppi á henni og gengu berfættir tugi kílómetra til sækja vinkonu sína.

„Þeim tókst einhvern veginn að finna húsið sem hún bjó í og hittu hana. Hún sagði þeim að hún vildi halda náminu áfram og hefði ekki áhuga á að búa með eiginmanninum og tengdafjölskyldunni,“ sagði Gopal Singh, kennari við skólann, sem hjálpaði unglingunum að sameinast, í samtali við AFP-fréttastofuna.

Lögreglan neitaði að hlusta á unglingana í fyrstu, en þau komust yfir símanúmer hjá háttsettum embættismanni í héraðinu, sem hafði verið hripað á vegg á lögreglustöðinni, og óskuðu eftir aðstoð, sem þau fengu. Stúlkan var fljótlega sótt heim til eiginmannsins og gat snúið aftur í skólann.

Hún hefur nú óskað eftir því að fjölskyldudómstóll í héraðinu ógildi hjónaband hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert