Lést er hann veitti ræningjum eftirför

Fjölmennt lið lögreglu tók þátt í leitinni að ræningjum sem …
Fjölmennt lið lögreglu tók þátt í leitinni að ræningjum sem náðust á flótta.

Lögreglumaður lét lífið eftir að hafa veitt fjórum ræningjum eftirför í Gautaborg í Svíþjóð í dag. Fjórmenningarnir höfðu rænt tóbaksverslun í austurhluta borgarinnar. Lögreglumaðurinn sem lést varð fyrir bifreið á E20-hraðbrautinni þegar hann hljóp á eftir ræningjunum sem hlupu eftir hraðbrautinni.

Þetta kemur fram á vef sænska ríkisútvarpsins.

Lögreglan segir að ránið hafi átt sér stað um 10:30 í tóbaksverslun við Kaggeledstorget. Hún segir enn fremur að ræningjarnir hafi haldið á hlutum sem hafi líkst skammbyssum og að þeir hafi slegið verslunareigandann í höfuðið. Hann hlaut hins vegar ekki alvarlega áverka. Eigandinn segir í samtali við sænska ríkisútvarpið að ræningjarnir hafi komist undan með um 40.000 sænskar krónur, sem jafngildir um 510.000 íslenskum krónum. 

Fjölmennt lögreglulið tók þátt í aðgerðinni sem naut aðstoðar lögregluþyrlu sem leitaði úr lofti.

Lögreglunni tókst fljótlega að handsama þrjá einstaklinga sem höfðu verið á flótta eftir hraðbrautinni en á sama tíma varð lögreglumaðurinn, sem var á fimmtugsaldri, fyrir bifreið. Lögreglan segir að þetta hafi verið hræðilegt slys.  

Lögreglan hélt blaðamannafund vegna málsins og þar kom fram að ræningjarnir hafi yfirgefið bifreið sem þeir voru í þar sem hún var ekki lengur í ökuhæfu ástandi. Þeir tóku til fótanna og lögreglumenn fylgdu á eftir. 

Lögreglumaðurinn sem varð fyrir bílnum var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum. Nokkrir lögreglumenn reyndu að koma félaga sínum til aðstoðar með því að beita fyrstu hjálp. Þeim hefur verið boðin áfallahjálp. 

Fjórði maðurinn sem er grunaður um að hafa tekið þátt í ráninu var handtekinn nokkru síðar skammt frá hraðbrautinni. Þá hafa lögregluhundar fundið vopn sem lögregla skoðar nú hvort hafi verið notað við ránið. 

Miklar umferðartafir urðu vegna slyssins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert