Vilja alþjóðlegt regluverk um drónaflug

Reglur norska loftferðaeftirlitsins eru skýrar þótt ekki sé alltaf auðvelt …
Reglur norska loftferðaeftirlitsins eru skýrar þótt ekki sé alltaf auðvelt að framfylgja þeim en þær segja að enginn megi stýra dróna ölvaður. AFP

Samtök atvinnuflugmanna í Noregi lýsa yfir þungum áhyggjum af ábyrgðarlausri og háskalegri notkun dróna í nánd við stóra flugvelli og krefjast alþjóðlegra reglna um notkun slíkra tækja. Lögregla tekur undir þetta og bendir á að drónaflug yfir fjölmennum samkomum geti valdið stórslysum.

Síðastliðið ár hafa 14 tilfelli komið upp þar sem drónaeigendur hafa brotið reglur norska loftferðaeftirlitsins en algeng sekt fyrir háskalegt drónaflug er 8.000 norskar krónur, jafnvirði 105.000 íslenskra króna.

„Þessi tæki eru stórhættuleg, ímyndaðu þér skaðann sem hlotist gæti af því ef dróni hrapaði til jarðar þar sem 15.000 manns væru saman komnir líkt og á tónleikum [á vegum dagblaðsins] VG í Bergen,“ segir Gustav Landro hjá vesturumdæmi norsku lögreglunnar, í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK, en á téðum tónleikum þurfti lögregla að hafa afskipti af drónaflugmanni og stöðva flug hans yfir áhorfendaskaranum.

Edrú og í dagsbirtu

Petter Førde, formaður Samtaka atvinnuflugmanna, tekur undir þetta og segir verulega hættu geta fylgt notkun þessara tækja. „Fái flugvél á miklum hraða dróna í hreyfilinn getur orðið stórslys,“ segir Førde í samtali við NRK. „Við erum ekki að segja að við viljum banna drónaflug, drónar eru framtíðin, en við óskum eftir alþjóðlegum reglum um notkun þeirra, þar á meðal þess að allir drónar verði búnir sendi sem geri þá sýnilega á radar,“ sagði hann enn fremur.

Fréttastofan AP greindi frá því í gær að bresk loftferðayfirvöld hygðust herða reglur sínar um drónaflug eftir nokkur tilvik þar sem drónar og farþegaflugvélar hafa komist í hættulegt návígi. Reglur norska loftferðaeftirlitsins eru skýrar þótt ekki sé alltaf auðvelt að framfylgja þeim en þær segja að enginn megi stýra dróna ölvaður, drónum megi eingöngu fljúga í dagsbirtu, þeir megi ekki vera innan 150 metra frá stærri en 100 manna hópum og ekki nær fólki, bílum og byggingum en 50 metra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert