Fundu hálfa milljón sænskra króna í nuddstól

Nuddstóllinn og peningapokinn sem leyndist inni í honum. Lögreglu grunar …
Nuddstóllinn og peningapokinn sem leyndist inni í honum. Lögreglu grunar að féð tengist peningaþvætti. Skjáskot/Lögreglan í Malmö

Lögreglan í Malmö í Svíþjóð fann hálfa milljón sænskra króna í nuddstól við húsleit í borginni. Í íbúðinni bjó þriggja barna móðir með börnum sínum og öll neita þau að hafa vitað um peningana.

Húsleitin var gerð í október í fyrra vegna gruns um gróft brot á vopnalögum. Enginn í fjölskyldunni kannast við peningana sem fundust í stólnum og tæknideild lögreglunnar hefur heldur ekki getað upplýst hverjum féð tilheyri.

Vefur sænska ríkisútvarpsins SVT fjallar um málið og segir upphæðina 545.000 sænskar krónur, eða um sjö milljónir íslenskra króna, óvenjuháa miðað við þær fjárhæðir sem lögregla leggur venjulega hald á í tengslum við glæpamál. 150.000 sænskar krónur, eða um tvær milljónir íslenskra króna, er algengari upphæð að sögn Nils Norling, upplýsingafulltrúa lögreglunnar.  

Nú hefur héraðsdómstóllinn í Malmö ákveðið að peningarnir verði gerðir upptækir og verði hér eftir eign ríkisins, en lögreglu grunar að féð tengist peningaþvætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert