„Ég stjórna ekki fólkinu“

Lögregla hefur þegar þurft að beita táragasi á hjóp stjórnarandstæðinga …
Lögregla hefur þegar þurft að beita táragasi á hjóp stjórnarandstæðinga í Nairobi í Kenía eftir forsetakosningar. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Kenía, Raila Odinga, segir að átt hafi verið við niðurstöður kosninganna þar sem núverandi forseti, Uhuru Kenyatta, fékk meirihluta atkvæða. AFP

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Kenía, Raila Odinga, segir að átt hafi verið við niðurstöður forsetakosninganna þar sem núverandi forseti, Uhuru Kenyatta, hefur fengið meirihluta atkvæða.

„Það er aðeins hægt að svindla á fólki svo lengi,“ sagði Odinga. „Almennu kosningarnar 2017 voru svik.“ Sagði hann að tölvuþrjótur hefði brotist inn í kosningakerfið yfir nóttina. Hvetur hann stuðningsmenn sína til þess að halda ró sinni en bætti við: „Ég stjórna ekki fólkinu.“

The Guardian greinir frá því að atkvæðagreiðslan hafi farið friðsamlega fram en óttast er að reiðir stuðningsmenn Odinga flykkist út á götur á næstu dögum til þess að mótmæla niðurstöðunum. Lögregla hefur þegar þurft að beita táragasi á hóp stjórnarandstæðinga í Nairobi sem hrópuðu: „Enginn Odinga, enginn friður!“

94% kjörseðla hafa verið taldir. Fékk Kenyatta 54,4% atkvæða á móti 44,8% atkvæða Odinga og munar um 1.3 milljón atkvæða. Fjöldi fólks beið í röðum langt fram á kvöld í gær til þess að greiða atkvæði en kosningarnar eru álitnar próf fyrir stöðugleika eins mikilvægasta ríkis Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert