Bílar sem vopn: Hvers vegna?

Flutningabíllinn á strandgötunni í Nice. Bílstjórinn olli dauða 86 í …
Flutningabíllinn á strandgötunni í Nice. Bílstjórinn olli dauða 86 í júlí í fyrra. AFP

Á einu ári hafa verið gerðar að minnsta kosti sjö mann­skæðar ­árás­ir í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem bíl er ekið inn í mann­fjölda. Sú mann­skæðasta var í frönsku borg­inni Nice þar sem 86 lét­ust. Önnur var gerð á markað í Berlín þar sem tólf lét­ust. Í mars ók svo maður á gang­andi veg­far­end­ur á West­minster­brúnni í London. Fjórir lét­ust í þeirri árás. Í apríl ók Rakhmat Akilov flutningabíl viljandi inn í mannþröng á Drottningargötu í Stokkhólmi. Fjórir létust og fimmtán særðust.

Skömmu eftir að mannskætt hryðjuverk var framið á tónleikum Ariönu Grande í Manchester í júní óku þrír hryðjuverkamenn bíl á vegfarendur á London-Bridge. Enginn lést. Í sama mánuði ók maður bíl á fólk við mosku í Finsbury Park í London. Einn maður lést. Í byrjun ágúst handtók lögreglan í París mann sem hafði ekið BMW-bifreið á hóp hermanna. Sex særðust en enginn lést. Í síðustu viku ók maður svo á mótmælendur í bandarísku borginni Charlottesville með þeim afleiðingum að ein kona lést.

Á fimmtudag var svo framið enn eitt voðaverkið þar sem bíll var notaður sem vopn. Í þetta sinn var skotmarkið spænska borgin Barcelona. Fjórtán féllu í þeirri árás.

Allar þessar árásir hafa átt sér stað á rétt rúmlega ári. Vígamenn Ríkis íslams hafa lýst yfir ábyrgð á mörgum þessara mannskæðu árása, m.a. þeim sem gerðar voru í London, Nice og Berlín.

Fólk safnast saman á Römblunni í Barcelona til að minnast …
Fólk safnast saman á Römblunni í Barcelona til að minnast fórnarlamba árásarinnar á fimmtudag. AFP

Ein­fald­ar árás­ir auðveld­ar í fram­kvæmd

Nú þegar tækn­inni fleyg­ir fram má spyrja hvers vegna hryðju­verka­menn og sam­tök not­ist við svo „ein­fald­ar“ aðferðir í árás­um sín­um?

Mark­mið hryðju­verka­árása er ekki aðeins að drepa og skaða fólk. Það er ekki síst það að skapa ótta og auka tor­tryggni. Þá skipt­ir engu hvaða aðferðum er beitt.

Erfitt er að koma í veg fyr­ir árás sem bygg­ir á þeirri aðferð að aka bíl­um um um­ferðargöt­ur og inn í fólks­fjölda. Und­ir­bún­ing­ur slíks til­ræðis þarf held­ur ekki að vera mik­ill og kost­ar ekki mikla fjár­muni eða sérþekk­ingu. Aðeins ör­fá­ir þurfa að koma að skipu­lagn­ing­unni. Þá tek­ur ekki lang­an tíma að und­ir­búa slíka árás. Í því fellst aðdrátt­ar­aflið fyr­ir hryðju­verka­menn­ina en einnig varn­ar­leysi yf­ir­valda.

Tími um­fangs­mik­illa hryðju­verka­árása, sem tek­ur marga mánuði að und­ir­búa og tugi manna að fram­kvæma með há­tækni­leg­um aðferðum, er því mögu­lega á undanhaldi.

740 fallið í hryðjuverkum

Frá ár­inu 2003 hafa hátt í 740 manns fallið fyr­ir hendi hryðju­verka­manna í Evr­ópu. Þá hafa um 5.000 manns særst í árás­um af þeim toga í álf­unni. 

Árás­irn­ar í Barcelona, Cambrils og Tur­ku eru aðeins nýj­ustu dæm­in af fjöl­mörg­um þar sem ódæðis­menn hafa lagt til at­lögu gegn al­menn­um borg­ur­um. Í nýrri hryðju­verka­skýrslu Evr­ópu­lög­regl­unn­ar, sem fjallað er um í Morgunblaðinu í dag, kem­ur fram að ör­ygg­is­ógn­ir hafi al­mennt farið vax­andi á síðustu árum inn­an ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins.

Greinin er að miklu leyti byggð á grein sem birtist á mbl.is í kjölfar árásarinnar á breska þinghúsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert