Vöruðu katalónsk yfirvöld við ímaminum

Rúmlega hundruð slösuðust og 13 létust þegar flutningabíl var ekið …
Rúmlega hundruð slösuðust og 13 létust þegar flutningabíl var ekið yfir gangandi vegfarendur á Römblunni í Barcelona. AFP

Innanríkisráðuneyti Katalóníu var varað við ímaminum Abdebaki Es Satty, sem talinn er hafa verið forsprakki hryðjuverkahópsins sem varð 15 manns að bana í árásum á Barcelona og Cambrils í síðustu viku.

Breska dagblaðið Guardian segir yfirvöld í belgíska bænum Vilvoorde hafa varað við Es Satty.

Hans Bonte, borgarstjóri Vilvoorde, sagði öryggislögreglu á staðnum hafa sent yfirvöldum í Katalóníu póst þar sem þau lýstu yfir áhyggjum sínum af Es Satty.

Átta af tólfmenningunum, sem taldir eru hafa ekið flutningabíl á vegfarendur á Römblunni í Barcelona sl. fimmtudag og fólksbíl á vegfarendur í Cambrils síðar sama kvöld, eru nú látnir. Þeir höfðu hérumbil allir búið í borginni Ripoll á Spáni þar sem Es Satty hafði gegnt hlutverki múslimaklerks í tvö ár, þrátt fyrir að hafa setið af sér fangelsisdóm á Spáni fyrir fíkniefnasmygl.

Hann dvaldi í nokkra mánuði snemma árs 2016 í Vilvoorde.

Hegðaði sér undarlega

„Ímaminn í Diegem [belgískum bæ í nágrenni Vilvoorde] spurðist fyrir um manninn sem flutt hefði til Vilvoorde,” sagði Bonte í viðtali við spænska dagblaðið El País. „Hann sagði að hann hegðaði sér undarlega og hefði sagt sér að hann hefði farið frá Spáni af því hann ætti enga framtíð þar. Hann hefði sjálfur lýst því yfir að hann væri ímam þó að hann hefði enga faggildingu þess efnis.“

Bonte sagði katalónsk yfirvöld hafa svarað samdægurs og sagt að Es Satty væri „ekki þekktur“ af yfirvöldum í Katalóníu og ekki væri vitað til þess að hann hefði tengsl við íslamska öfgatrúarmenn.   

Heimildamenn El País innan spænsku hryðjuverkalögreglunnar segja upplýsingunum ekki hafa verið komið áfram til þeirra og talsmaður katalónska innanríkisráðuneytisins segir um „óformlegt spjall“ tveggja embættismanna hafa verið að ræða.

Voru að búa til sprengjuvesti

Spænska lögreglan greindi frá því í gær að hryðjuverkahópurinn hefði búið til sprengjuvesti og hefði verið að útbúa nokkur slík til viðbótar þegar gassprenging varð við framleiðslu þeirra í bænum Alcanar á miðvikudaginn í síðustu viku.

Tveir létust í sprengingunni, annar þeirra er talinn hafa verið klerkurinn Es Satty.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert