Sjúkdómahætta samfara flóðunum

Fólk á gangi í flóðavatninu á Telephone Rd. í Houston.
Fólk á gangi í flóðavatninu á Telephone Rd. í Houston. AFP

Götur í þeim borgum og bæjum í Texas sem hafa orðið hvað verst úti í úrhellisrigningunni sem fylgdi í kjölfar fellibyljarins Harvey eru á kafi. Fimm eru látnir, fleiri þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín og margar af helstu stofnæðum borgarinnar Houston eru með öllu ófærar vegna flóðavatnsins.

Búast má við að á næstu dögum eigi tala látinna eftir að hækka enn frekar og búast má við að margir eigi eftir að veikjast vegna þess að vatnið sem nú flæðir um allt er fjarri því að vera hreint. Niðurgangur og ýmsir lífshættulegir sjúkdómar kunna að gera vart við sig hjá þeim sem hafa komist í snertingu við flóðavatnið.

Þetta hefur danska ríkisútvarpið DR eftir farsóttafræðingnum Steen Ethelberg, sem starfar hjá dönsku farsóttarstofnuninni.

Gestum bjargað af hóteli í Houston eftir flóðin sem fylgt …
Gestum bjargað af hóteli í Houston eftir flóðin sem fylgt hafa Harvey. AFP

Regnvatn blandað klóakvatni

„Vatnið sem nú flýtur um götur og smeygir sér inn í hús er í flestum tilfellum venjulegt regnvatn, blandað klóakvatni. Þess vegna eru lífverur í vatninu sem geta valdið sjúkdómum og þegar vaðið er í vatninu eða reynt að hreinsa til eftir það þá á maður á hættu að veikjast,“ segir Ethelberg.

„Það er nefnilega auðvelt að fá örlitla vatnsskvettu upp í sig og þá getur maður fengið maga- eða þarmasýkingu með niðurgangi og öðrum óþægindum.“

Ethelberg segir bakteríur á borð við kólígerla, kamfýlóbakter, vírusa og sníkjudýr auðveldlega kunna að leynast í flóðavatninu. „Ef maður er með sár eða skurði á húðinni er líka hætta á að það komist sýking í slíkt,“ bætir hann við.

Leikhúsahverfið í Houston. Ethelberg segir íbúa ekki örugga um að …
Leikhúsahverfið í Houston. Ethelberg segir íbúa ekki örugga um að sýkjast ekki af klóakvatninu fyrr en búið sé að gjörhreinsa borgina. AFP

Ekki öruggir fyrr en búið er að gjörhreinsa borgina

Bandaríska veðurstofan segir að úrkomumagnið á tveimur sólarhringum hafi verið um 790 mm. Úrkoma í því magni kann að leiða til þess að dauðar eða lifandi rottur leynist í flóðavatninu og rottur geta borið með sér svo nefnda Leptospirose-bakteríu.

„Það er baktería sem finnst í þvagi úr músum og rottum. Hún getur smitast í gegnum húðina ef maður er í menguðu vatni í lengri tíma. Hún getur valdið Weils-sjúkdómi,“ segir Ethelberg, en Weils getur reynst alvarlegur og jafnvel banvænn sjúkdómur.

„Það er í raun ekki fyrr en það er búið að gjörhreinsa þessa milljónaborg sem íbúar þar geta talið sig örugga um að sýkjast ekki af klóakvatninu.“ Talið er að það muni taka fleiri ár að koma Houston í samt lag aftur.

Áfram hefur haldið að rigna í Texas og hafa yfirvöld varað við því að von sé á enn meiri ofankomu, stórviðri og skýstrókum í nótt. Þá er útlit fyrir að Havey haldi stuttlega út á haf á ný og komi svo aftur yfir Texas og Louisiana-ríki með endurnýjaðar regnbirgðir í farteskinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert