Brú hrundi í Baltimore

Mynd úr safni AFP af flutningaskipi undir brúnni Francis Scott …
Mynd úr safni AFP af flutningaskipi undir brúnni Francis Scott Key. AFP/Mark Wilson/Getty

Brúin Francis Scott Key í bandarísku borginni Baltimore hrundi eftir að skip rakst á hana.

Samgönguyfirvöld í ríkinu Maryland greindu frá þessu. Hvöttu þau ökumenn til að forðast leiðina yfir ána Patapsco vegna óhappsins.

Talsmaður lögreglunnar í Baltimore sagði að fólk gæti mögulega verið í ánni.

Flutningaskip skráð í Singapúr

„Ég get staðfest að klukkan 1.35 [5.35 að íslenskum tíma] fékk lögreglan í Baltimore tilkynningu um að brú hefði hrunið að hluta til og að verkamenn væru mögulega í vatninu við brúna Francis Scott Key,” sagði rannsóknarlögreglumaðurinn Niki Fennoy í yfirlýsingu.

Á síðunni MarineTraffic sást flutningaskip með fána frá Singapúr sem nefnist Dali stöðvast undir brúnni í nótt.

Uppfært kl. 8.45:

Fyrirtækið Synergi Marine Group hefur staðfest að flutningaskip þess frá Singapúr, Dali, hafi rekist á stoðir brúarinnar, að sögn BBC. Ekki er ljóst nákvæmlega hvers vegna slysið varð.

Engra úr áhöfninni er saknað og engar fregnir hafa borist af meiðslum, að því er sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins. 

Slökkviliðsstjórinn í Baltimore sagði að allt að 20 verkamenn hefðu fallið ofan í ána eftir áreksturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert