Stefán bað skjólstæðing sinn afsökunar

Stefán Karl var sektaður fyrir að mæta ekki.
Stefán Karl var sektaður fyrir að mæta ekki. mbl.is/RAX

Héraðsdómslögmaðurinn Stefán Karl Kristjánsson viðurkennir að hann gerði mistök þegar hann mætti ekki til aðalmeðferðar í máli við Héraðsdóm Reykjaness. Misritun í dagbók hafi verið þar um að kenna. Hann hefur beðið skjólstæðing sinn afsökunar á mistökunum.

Eins og greint var frá á mbl.is í gær var Stefáni Karli sektaður um 300.000 krónur fyrir að mæta ekki við þinghöld, en dómara þótti það til þess fallið að „misbjóða virðingu dómsins“.

Í yfirlýsingu frá Stefáni hafnar hann því að hafa brotið gegn skjólstæðingi sínum eða sýnt dómnum vanvirðu. „Ég tel afgreiðslu dómara tilhæfulausa og mun leita eftir því á öðrum vettvangi að fá henni hnekkt.“

Hann segir misritun í dagbók hafa ráðið því að hann mætti ekki til aðalmeðferðar. „Vandræðalítið var fyrir dóminn að hafa samband við lögmannsstofuna og leita skýringa á útivist. Dómari kaus hins vegar ekki að gera það og undrar mig.“

Þá segir í yfirlýsingu Stefáns sem sendi fjölmiðlum endurrit þingbókar með athugasemdum sínum: „Í athugasemdum er fundið að því að dómari hafi ekki tilkynnt verjanda um dagsetningar á fyrirtökum, að lögmæt boðuð forföll eru skráð sem ólögmæt, að þingbók málsins ber þess merki að vera breytt eftir á, að ekki er boðað til þinghalda með formlegum hætti, að dómari misritar dagsetningar fyrirtöku og leiðréttir ekki, að dómari á í einhliða samskiptum við ákæruvald um frestun máls utan réttar og að ekki var haft samband við verjanda þegar hann mætti ekki til þinghalds 4. febrúar 2014.“

Samkvæmt upplýsingum frá Lögmannafélagi Íslands getur skjólstæðingur sent inn kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna telji hann að háttsemi lögmanns kunni að stríða gegn lögum eða siðareglum félagsins.

Frétt mbl.is: Verjandi sektaður fyrir lélega mætingu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert