„Greip tækifærið í góðri veðurspá“

Ljósmynd Ingólfs úr Raufarhólshelli
Ljósmynd Ingólfs úr Raufarhólshelli Ljósmynd/Ingólfur K. Bjargmundsson

„Ég var búinn að sjá þetta skot fyrir mér nokkuð lengi, svo greip ég tækifærið einn daginn þegar ég vissi að spáin væri góð,“ segir Ingólfur K. Bjargmundsson, áhugaljósmyndari en ljósmynd hans úr Raufarhólshelli er á lista yfir bestu myndirnar í geimljósmyndasamkeppni á vegum Konunglega geimskoðunarstöðvarinnar í Greenwich.

Á myndinni má sjá stjörnum þakinn næturhimininn í gegnum hellisþakið í Raufarhólshelli. „Þetta er samsett mynd. Ég þurfti í rauninni að setja saman þrjár myndir. Ég setti myndavélina á þrífót og svo gekk ég um og lýstu upp hellinn með flassi. Annars væri ekki hægt að taka mynd því það er svo dimmt þarna.“

Ingólfur tók líka þátt í keppninni í fyrra og þá komst myndin hans einnig á lista yfir bestu myndirnar. Mörg þúsund myndir eru sendar inn á hverju ári og því flottur árangur að ná mynd á listann tvö ár í röð. „Ég ætlaði að reyna að gera betur en í fyrra þegar ég komst á listann. Þær myndir sem komast á listann fá að vera með í bók sem gefin er út af aðstandendum keppninnar, Royal observatory Greenwich. 

Úrslitin eru svo tilkynnt í september og eru nokkur verðlaun í boði. Sigurvegarinn fær 1500 sterlingspund og titilinn „Astronomy photographer of the year.“ „Það sem vinnur ekki með mér er að það er ansi lítill hluti af myndinni sem er af himingeimnum, en kannski á maður samt séns,“ segir Ingólfur. 

Stjörnuljósmyndun er tæknilega erfið

Ljósmyndaáhugi Ingólfs kviknaði af alvöru fyrir fimm árum síðan, en hann er sjálflærður að öllu leiti. „Ég hef verið að taka myndir af því sem heillar hverju sinni og hef tekið myndir af öllu mögulegu en að mestu landslagsmyndir. Nýlega hef ég byrjað á því að taka myndir af norðurljósum.“

„Nýjasta áhugamálið er svo þessi stjörnuljósmyndun. Það er tæknilega flókin ljósmyndun,“ segir Ingólfur.

Ingólfur er með Flicker-síðu með myndunum sínum og inni á síðunni rak hann fyrst augun í geimljósmyndasamkeppnina. „Ég rakst á þetta í fyrra og ákvað að prófa að taka þátt. Nú tek ég þátt í annað sinn og hef í bæði skiptin komist á listann.“

Ljósmynd Ingólfs sem komst á listann í fyrra.
Ljósmynd Ingólfs sem komst á listann í fyrra. Ljósmynd/Ingólfur K. Bjargmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert