Fékk milljónir eftir sjö ára þolinmæði

Maðurinn hefur notað sama seðilinn í hverri viku undanfarin 7 …
Maðurinn hefur notað sama seðilinn í hverri viku undanfarin 7 ár.

Einn Íslendingur var með 13 rétta á enska getraunaseðlinum í gær og verður rúmum 4 milljónum króna ríkari fyrir vikið. Að því er segir í tilkynningu frá Íslenskum getraunum er um að ræða stuðningsmann Hattar á Egilsstöðum sem tekið hefur þátt í getraunastarfinu þar í fjölda ára.

Stuðningsmaðurinn er með liðið Bogason og tekur þátt í Meistaradeild Hattar. Hann hefur alltaf tippað eins og notað sama seðilinn í hverri viku undanfarin 7 ár. Segja má að þolinmæðin hafi loks skilað sér því nú uppsker hann þennan stóra vinning.

Notast hann við svokallað sparnaðarkerfi þar sem hann setur tvö merki á tíu leiki og eitt merki á 3 leiki, en kerfið kallast 0-10-128. Ef öll táknin koma upp rétt eru 12.5% líkur á 13 réttum, að því er segir í tilkynningunni. Að lokum er þess getið að liðið Bogason er á toppi Meistaradeildar Hattar, en í fyrra endaði liðið í neðsta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert