Fimm tíma að sofna í ísköldu snjóhúsi

Sigrún Inga Gunnarsdóttir og Haraldur Ketill Guðjónsson eru mjög ánægð …
Sigrún Inga Gunnarsdóttir og Haraldur Ketill Guðjónsson eru mjög ánægð með þjálfunina. mbl.is/Kristinn

Hjúkrunarfræðingurinn Sigrún Inga Gunnarsdóttir var ekki sannfærð í fyrstu um að nýliðaþjálfun Hjálparsveitar skáta í Kópavogi væri fyrir sig en lét þó tilleiðast að fara á kynningarfund fyrir tilstilli kærasta síns. Hún sér ekki eftir því eitt andartak og tekst nú á við krefjandi verkefni eins og að búa til snjóhús og gista í því.

„Ég hef lært að fara út fyrir þægindarammann en maður getur miklu, miklu meira en maður heldur,“ segir Sigrún Inga Gunnarsdóttir sem tekur þátt í nýliðaþjálfun í Hjálparsveit skáta í Kópavogi.

Sigrún Inga var ekki á þeim buxunum að ganga í björgunarsveit í fyrstu en lét þó tilleiðast að kíkja á einn kynningarfund fyrir áeggjan kærasta síns, Haraldar Ketils Guðjónssonar. Eftir fundinn varð ekki aftur snúið og hafa þau skötuhjú nú lokið helmingi nýliðaþjálfunarinnar og líkar dável enda félagsskapurinn ákaflega skemmtilegur.

Sigrún Inga er hjúkrunarfræðingur að mennt og starfar á Barnaspítalanum. Hún segir að vel hafi tekist til að púsla þjálfuninni saman við vinnuna.

Miklar tilfinningasveiflur í snjóhúsagerð

Um síðustu helgi hélt hópurinn að Skálafelli, byggði snjóhús og gisti í því yfir nótt. „Það var einstök upplifun, virkilega gaman en jafnframt mjög erfitt. Við vorum rúma sjö klukkutíma að moka snjóinn því það var svo mikið frost í honum en upphaflega var reiknað með að við yrðum þrjá tíma að því,“ segir Sigrún Inga.

Hópurinn hafði gengið í fjóra tíma til að komast á fýsilegan stað til að byggja snjóhúsið. Þegar þau höfðu bisað við að búa til snjóhúsið þá fóru ýmsar hugsanir í gegnum huga Sigrúnar Ingu, í aðra röndina fannst henni þetta æðislegt, eða þá að það væri ekki „séns“ að gera þetta aftur.

Eftir snjóhúsagerðina tók við heldur köld svefnaðstaða. „Það gekk ekkert rosalega vel að sofna og ég held að það eigi við um flesta. Það tók mig um fimm tíma, en eftir það náði ég að dotta aðeins.“ Hún bendir á að kuldinn hafi verið helsta ástæðan fyrir svefnleysinu og hún hafi því ekki náð að slaka almennilega á.

Nýliðaþjálfunin nær yfir fjórar annir og tekur sinn tíma. Farið er aðra hverja helgi út í náttúruna þar sem leyst eru hin ýmsu verkefni, auk þess er fræðsla á hverju þriðjudagskvöldi. Næsta verkefni sem bíður hópsins er ísklifur á Sólheimajökli. Hún segist hlakka mikið til enda sé það passlega mikið út fyrir þægindarammann en hún verður að sjálfsögðu vopnuð ísexi.

Hver og einn þarf að útvega sér sjálfur sinn búnað en það getur verið nokkuð kostnaðarsamt. Sigrún Inga viðurkennir að jólagjafalistinn í ár hafi verið nokkur frábrugðinn listanum á árunum á undan þar sem ýmislegt hafi ratað inn á hann eins og öryggishjálmur, ísexi og bakpoki svo fátt eitt sé nefnt.

Útivist í sumar

„Maður lærir að meta aðstæður í náttúrunni rétt, t.d. hvort það er möguleg snjóflóðahætta eða ekki. Þá hef ég líka áttað mig á því að það er hægt að stunda útivist allan ársins hring með réttan búnað. Ég er þegar farin að plana sumarið með gönguferð og ferðalög um landið í huga,“ segir Sigrún Inga að lokum, spurð hvað hún hafi lært af þjálfuninni.

Stöðug ásókn í nýliðaþjálfun

Í byrjun september á hverju ári tekur sveitin inn nýja einstaklinga í nýliðaþjálfun hjálparsveitarinnar í Kópavogi. Á því eina og hálfa ári sem þjálfunin stendur yfir öðlast nýliðarnir reynslu og þekkingu sem nauðsynleg er til að geta tekist á við verkefni sem björgunarsveitir þurfa að leysa allan ársins hring.

Nýliðarnir þurfa að hafa náð 18 ára aldri en aldursbil þátttakendanna er býsna breitt, flestir eru þeir frá 18 til 40 ára. Ásóknin í starfið hefur verið mjög góð undanfarið, að sögn formanns nýliðadeildarinnar. Á síðustu árum hafa að jafnaði 14 til 20 manns útskrifast úr þjálfuninni.

Á fyrra árinu fer fram mest af þjálfun í ýmsum aðstæðum en á því seinna er ríkari áhersla lögð á að kynna starfsemi sveitarinnar sem nýliðarnir taka öflugan þátt í.

Lítið var sofið um nóttina í snjóhúsinu sem þær voru …
Lítið var sofið um nóttina í snjóhúsinu sem þær voru sjö tíma að byggja en það var þó alveg þess virði að prófa eitthvað nýtt. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert