Bjargaði 55 börnum eftir skjálftann

Ishwor Ghimire hélt á börnunum út og passaði upp á …
Ishwor Ghimire hélt á börnunum út og passaði upp á að þau væru örugg. Af Facebooksíðu Ishwor Ghimire

Nepalskur unglingsdrengur bjargaði 55 munaðarlausum börnum út af munaðarleysingjahælinu sem hann ólst upp á, eftir að jarðskjálftinn reið yfir í Nepal í síðustu viku. 

Samkvæmt frétt Huffington Post hélt hinn 19 ára gamli Ishwor Ghimire ró sinni þegar jörðin tók að hristast, en þá var hann staddur í Nepal Deprived Women and Children Upliftment Center munaðarleysingjahælinu í höfuðborginni Katmandú. 

„Allir krakkarnir urðu svo hræddir og byrjuðu að öskra og gráta,“ sagði Ghimire. „Ég sagði öllum að koma sér út úr húsinu.“ Þá hélt hann á nokkrum barnanna út úr húsinu og passaði upp á að þau væru öll örugg. 

Öll börnin, sem eru á aldrinum 4-16 ára, lifðu af en húsið er enn ónothæft vegna hættu á því að það hrynji. Ghimire og rekstrarstjóri munaðarleysingjahælisins útbjuggu lítið plasttjald sem tímabundið skjól fyrir börnin í nálægum garði.

Ghimire hefur sagt frá stöðunni á Facebook-síðu sinni en hann segir enn gæta eftirkasta jarðskjálftans. Þá hafi þurft að koma nokkrum barnanna veikum á sjúkrahús, þar sem tjaldið haldi ekki á þeim hita.

„Við erum eiginlega bara á eigin spýtum, því við höfum ekki fengið neina hjálp ennþá,“ sagði hann í samtali við fréttastofu CNN.

Jarðskjálftinn er sá mannskæðasti í landinu í yfir 80 ár, en yfir sex þúsund hafa látist vegna hans.

Tjaldið sem Ghimire reisti.
Tjaldið sem Ghimire reisti. Af Facebooksíðu Ishwor Ghimire
Af Facebooksíðu Ishwor Ghimire
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert