Hefja viðræður af fullri alvöru

Frá samningafundi SGS og SA. Myndin er úr safni.
Frá samningafundi SGS og SA. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir í samtali við mbl.is ljóst að kjaraviðræður sambandsins við Samtök atvinnulífsins séu loks hafnar af fullri alvöru. Fundað var hjá ríkissáttasemjara í dag en Drífa vill ekki segja hvernig viðræðum hafi miðað.

Eins og kunnugt er gekk samninganefnd SGS frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins fyrr í dag um að fresta fyrirhuguðum verkföllum um sex daga. Er það mat samninganefndarinnar að gefinn skuli tími til að reyna til þrautar að ná samningum. Verkföllin áttu að hefjast á morgun.

Drífa segir að fulltrúum SGS hafi í dag verið kynnt drögin að samningum sem Flóabandalagið, verslunarmenn og Stéttarfélag Vesturlands hafa gert við Samtök atvinnulífsins.

„Við fengum drögin í hendurnar en það er margt óklarað og erfitt að segja nokkuð á þessum tímapunkti,“ segir hún.

Áfram verður fundað í húsakynnum ríkissáttasemjara á morgun, fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert