Ibizafjörður stóð undir nafni í dag

Þessir þurfa að skola af sér drulluna fyrir ballið.
Þessir þurfa að skola af sér drulluna fyrir ballið. Ljósmynd/Sigurjón Sigurðsson

Mýrarbolti var spilaður á Ísafirði í dag í sól og blíðu. Mótinu var frestað frá því í gær vegna kulda og rigningar. Jón Páll Hreinsson, mýrarfláki, var ánægður með hvernig til tókst. „Við vorum að krýna Evrópumeistarana fyrir stundu,“ segir Jón Páll við mbl.is. Í kvennaflokki sigruðu FC Drulluflottar en í karlaflokki urðu 100% Biceps hlutskarpastir.

„Völlur 1 og 2 voru óvenju drullugir. Sérstaklega völlur 1, hann var sérstaklega djúpur og stífur, sem er tækniorð í drullubransanum. Við færðum því úrslitaleikinn af velli 1, því liðum reyndist ómögulegt að skora á vellinum. Eftir fimm 0:0 leiki ákváðum við að færa undanúrslit og úrslit.“

Jón telur gesti oft hafa verið fleiri á Mýrarboltanum en í ár. „Ætli það séu ekki 1500-2000 manns hérna. Við erum samt alltaf heppin með gestina okkar sem eru upp til hópa kurteisir og almennilegir. Við erum þakklát fyrir okkar gesti í gegnum árin.“

Mótið var allt leikið í dag og þótti vel til takast. Aðstæður í gær buðu ekki upp á mikla útiveru hins vegar. „Það voru fjórar gráður og rigning. Í dag hefur verið fínt veður. Um hádegið kom sólin fram, dásamlegt veður.“ Blaðamaður spyr hvort Ibizafjörður hafi staðið undir nafni í dag, „nákvæmlega!“ svarar Jón Páll og hlær.

Hann segir leikmenn skola af sér drulluna fyrir kvöldið. „Nú er fólk að skola af sér í sturtuaðstöðunni. Þau hörðustu henda sér í ána, það er alltaf gott. Einnig er hægt að skella sér í sund, á svæðinu eru ekki nema fimm sundlaugar.“

Að drulluskolun lokinni getur fólk tekið fram ballfötin en Jón lofar miklu fjöri í kvöld. „Það verður hörku lokahóf. Retro stefson og hin stórgóða ísfirska hljómsveit Húsið á sléttunni spila fyrir gesti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert