Húsnæðið gjörónýtt eftir eldinn

Verkstæði lyftaraþjónustunnar Hraðbergs er að öllum líkindum gjörónýtt eftir að eldur kom upp í húsakynnum Hraðbergs við Vesturvör í Kópavogi í nótt. Slökkvilið er enn að störfum á svæðinu, þó tekist hafi að ráða niðurlögum eldsins á fimmta tímanum í nótt og rýkur m.a. úr þaki hússins.

Atli Sigurðsson framkvæmdastjóri Hraðbergs, segir föður sinn Sigurð Guðmundsson hafa verið í húsinu þegar eldsins varð vart. „Við feðgarnir eigum þetta saman og pabbi var að vinna frameftir í gærkvöldi við að þrífa og ganga frá. Hann ákvað síðan að leggja sig bara hérna,“ segir Atli. „Hann vaknaði svo við brunakerfið í nótt og hljóp þá niður í sal og sá hvað var að gerast. Hann hringdi þá í 112 og fékk þá þær fréttir að slökkviliðið væri þegar á leiðinni.“   

Atli segir eldinn hafa verið að magnast þegar faðir hans kom niður, en mikið af eldmat sé að finna í húsinu. „Þetta er náttúrlega verkstæði þannig að  hér eru gaskútar, málning og alls konar olíur, bæði mótorolíur og glussaolíur.“  Faðir hans hafi þá heyrt einhverjar sprengingar og dreif sig því út.

Allt til­tækt lið slökkviliðsins var sent á staðinn og auka­mann­skap­ur var kallaður út. Allt í allt voru um fjöru­tíu slökkviliðsmenn kallaðir út vegna elds­ins og segir Atli slökkviliðið enn ekki hleypa neinum inn í húsið þar sem þeir hafi áhyggjur af að glóð leynist í þakinu.

„Ég vona að við fáum að fara inn síðar í dag, en lögreglan stjórnar því bara. Þegar slökkviliðið hleypir einhverjum inn þá er rannsóknarlögreglan næst á staðinn og svo kemur í ljós hvenær við fáum að kíkja inn.“

Telur eldinn hafa komið að utan

Hann segir þó ljóst að útlit sé fyrir mikið tjón hjá fyrirtækinu. „Ég held að húsið sé ónýtt og allt sem er inni í því,“ segir hann og bætir við að tryggingamálin eigi þó að vera í lagi. „Við erum með allar okkar tryggingar hjá VÍS og ég veit ekki betur en að við eigum að vera tryggðir alveg upp í topp.“

Ekki er vitað um upp­tök elds­ins og segir Atli þá feðga einungis vera með getgátur enn sem komið er. „Ég veit ekki hvað getur hafa valdið þessu og rannsóknarlögreglan á alveg eftir að skoða þau mál. Pabbi var hins vegar að giska á að eldurinn hefði komið að utan og þær getgátur byggði hann á ásigkomulaginu og því sem hann sá þegar hann kom niður.“

Öll þjónusta Hraðbergs mun þó ekki leggjast af á næstunni vegna eldsins. „Við byggjum mikið á þjónustubílum og gerum mikið við úti á svæðum og bílarnir eru í lagi. Við erum hins vegar ekki að fara að gera við í þessu húsi, þannig að verkstæðið er eitthvað sem við verðum að skoða á næstu dögum.“

Slökkvistörfum lokið í Kópavogi

Altjón í eldsvoða í nótt

Gífurlegar skemmdir eru á húsinu.
Gífurlegar skemmdir eru á húsinu. mbl.is/Lára Halla
Það vildi þannig til að ég var hérna í húsinu …
Það vildi þannig til að ég var hérna í húsinu og vakna bara við brunakerfið. Við erum með ágætis aðstöðu hér ef maður þarf. Í þessu tilviki var ég hérna og stekk niður í sal þar sem er verkstæði. Þar teygðu eldtungurnar sig upp með innanverðri hurðinni stóru, segir Sigurður Guðmundsson, annar eiganda fyrirtækisins í samtali við mbl á vettvangi Mbl.is/ Lára Halla
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert