Svörtuborgir strax aftur í áætlunarflug

Boeing 767-þota í eigu Icelandair.
Boeing 767-þota í eigu Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Farþegarnir, sem setið hafa fastir í Amsterdam í Hollandi í tæpan sólarhring eftir að bilun kom upp í einni af vélum Icelandair, koma til Íslands í dag. Unnið er að viðgerð vélarinnar á Schiphol-flugvelli en ekki liggur fyrir hvenær henni lýkur. Flugfélagið hefur þurft að hætta við þrjár flugferðir frá því að það fékk vélina afhenta í apríl á þessu ári.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við mbl.is að farþegarnir hafi verið á hóteli í nótt og komi heim með annarri vél. Vélin sem bilaði heitir TF-ISN, eða Svörtuborgir, og er af gerðinni Boeing 767. Hún átti að fara í loftið kl. 14 í gær að staðartíma.

Hversu mikil áhrif hefur þetta á starfsemi ykkar?

„Við björgum okkur, þetta kostar ekki að við fellum niður önnur flug eða þess háttar,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is. Um er að ræða bilun í skynjara í rafkerfi vélarinnar. Reynt var að gera við bilunina í gær en fljótlega kom í ljós að frekari viðgerða var þörf.  

Guðjón gerir ráð fyrir að vélin fari þegar í stað aftur í áætlunarflug að lokinni viðgerð. Hann gerir lítið úr ítrekuðum bilunum í vélinni. „Það geta allar flugvélar bilað, þessi eins og aðrar. Öryggið er bara númer eitt, tvö og þrjú og ekki gefinn neinn afsláttur af því. Vélin sjálf er bara í fínasta lagi,“ segir hann.

Fréttir mbl.is um bilanir í vélinni:

Sama farþegaþotan bilaði aftur

Vélinni flogið til Amsterdam í morgun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert