Smári býður sig fram í fyrsta sæti

Smári McCarthy.
Smári McCarthy. mbl.is/Sigurgeir

Smári McCarthy ætlar að bjóða sig fram í fyrsta sæti fyrir Pírata í þingkosningum í haust. Hann tekur af allan vafa um þetta á pírataspjallinu í dag þar sem hann svarar fyrirspurn um hvort hann ætli sér að fara fram. 

Ég fer í það sæti sem sunnlenskir Píratar setja mig, en mig langar til að taka fyrsta sætið,“ segir Smári en hann ætlar að flytjast til Íslands í lok ágúst eftir að klára verkefni sem hann vinnur að í Bosníu og Hertzegovínu, þar sem hann er búsettur núna.

Hann segist velja suðurkjördæmið þar sem hann sé uppalinn í Vestmannaeyjum að hann þurfi að „representa,“ en áður hafði fólk velt því fyrir sér hvort hann færi fram í kraganum eða Reykjavík.

Stefnt er að kosningum í haust og segir Smári að heldur seint sé að koma í ágúst, „en kemst því miður ekki fyrr vegna þess að ég þarf að klára vinnu mína hér. Ég hlakka til að koma og standa í þessu stappi með Pírötum," bætir hann við.

Smári hefur verið viðloðandi Pírata frá stofnun flokksins og var hann t.a.m. nefndur sem einn af stofnendum hans þegar fyrstu fréttir fóru að berast út um að Birgitta Jónsdóttir væri að stofna flokkinn árið 2012. Þá var hann í fyrsta sæti flokksins fyrir þingkosningarnar árið 2013 og var eftir birtingu fyrstu talna inni sem þingmaður. Þegar leið á nóttina kom aftur á móti í ljós að Píratar fengju þrjá þingmenn og var Smári ekki meðal þeirra sem endaði inni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert