Bæjaryfirvöld í Fjallabyggð og lögreglustjóraembættið á Norðurlandi eystra hafa komið sér saman um lausn á ágreiningi vegna greiðslu löggæslukostnaðar vegna bæjarhátíðarinnar Síldarævintýrið á Siglufirði 2016. Bæjarráð Fjallabyggðar fundaði í hádeginu vegna málsins. Því er ljóst að Síldarævintýrið verður haldið í ár eins og venjan er.
Óvissa ríkti um hvort lögreglan myndi gefa hátíðinni jákvæða umsögn fyrir sýslumanni. Slík umsögn er forsenda skemmtanaleyfis.
Frétt mbl.is: Verður ævintýrið haldið í óleyfi?
„Fjallabyggð mun ekki greiða umræddan löggæslukostnað nema æðra stjórnvald eða dómstólar ákveði að Fjallabyggð beri að greiða þennan kostnað. Fjallabyggð mun eðlilega hlíta þeim úrskurði,“ segir á vefsíðu Fjallabyggðar.
„Lögreglustjóraembættið mun í framhaldi af þessari ákvörðun bæjarráðs gefa út jákvæða umsögn til sýslumannsembættisins varðandi tækifærisleyfi fyrir hátíðina. Gott samstarf hefur ávallt verið á milli bæjaryfirvalda í Fjallabyggð og lögreglunnar á Norðurlandi eystra og verður það óbreytt, þrátt fyrir framangreindan ágreining.“
Á fundi bæjarráðs var lagt fram bréf innanríkisráðuneytis, dagsett í gær, þar sem fram kemur að kvörtun Fjallabyggðar vegna umsagnar embættis lögreglustjóra Norðurlands eystra út af umsókn um tækifærisleyfi fyrir bæjarhátíðina hafi verið framsend atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu til þóknanlegrar meðferðar.
Samkvæmt Gunnari Birgissyni, bæjarstjóra Fjallabyggðar, setti lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra sem skilyrði að bærinn borgi löggæsluskatt upp á 180 þúsund krónur. Því hafnaði bærinn og sagði að engin lagastoð væri fyrir innheimtunni.