Birtu fundargerðina degi fyrir fundinn

Guðmundur Ari á sæti í bæjarráði Seltjarnarness.
Guðmundur Ari á sæti í bæjarráði Seltjarnarness. mbl.is/Ásdís

Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi, birti í gærkvöldi fundargerð bæjarráðs á Facebook-síðu sinni. Fundargerðin er nokkuð hefðbundin, fyrir utan það eitt að fundurinn var ekki haldinn fyrr en nú í morgun.

Í samtali við mbl.is segir Guðmundur Ari að hann hafi með birtingunni viljað vekja athygli á vinnubrögðum meirihlutans í bæjarstjórn Seltjarnarness, en í fundargerðinni kemur meðal annars fram hverjir hafi mætt á fundinn ásamt því sem afgreiðslu ýmissa mála er lýst.

Fundargerðin sem Guðmundur Ari deildi á Facebook.
Fundargerðin sem Guðmundur Ari deildi á Facebook.

„Skrautleg vinnubrögð“

„Fundargerðin er send með öllum niðurstöðum, hvert málum væri vísað og hvernig umræður fóru fram á fundinum. Meirihlutinn var því búinn að funda í sínu horni og stilla þessu upp. Svo fengum við þetta bara sent. Óþarfi að mæta á fundinn,“ segir Guðmundur Ari.

Aðspurður segir hann að þetta sé þó venjan og að fundargerðin geti tekið breytingum að loknum sjálfum fundinum.

„En þetta eru mjög skrautleg vinnubrögð, að senda ekki bara út dagskrá og vinna svo fundargerð út frá umræðunum á fundinum. Nú er fundurinn búinn og fundargerðin breyttist heilmikið.“

Hann segir minnihlutann áður hafa vakið máls á þessum vinnubrögðum við meirihlutann, þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja.

„En ég held að þau hugsi sig tvisvar um þegar þetta er farið að spyrjast út.“

Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi.
Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi.

Spurning hvort það taki sig að mæta?

Á Facebook lætur Guðmundur Ari eftirfarandi fylgja með fundargerðinni:

„Flokkur með um 52% meirihluta sendir fulltrúum minnihlutans fundardagskrá fyrir fund bæjarráðs sem við eigum saman í fyrramálið þar sem búið er að afgreiða öll málin og hvernig unnið verður með þau áfram.

Spurning hvort það taki sig að mæta, búið að merkja við mætingu hjá mér og allt!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert