Samræmd próf í 9. bekk ráði ekki vali

Menntaskólinn í Reykjavík.
Menntaskólinn í Reykjavík. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Meirihluti skóla- og frístundaráðs gagnrýnir harðlega að niðurstöður samræmda prófa í 9. bekk grunnskóla geti ráðið úrslitum um inntöku nemenda í tiltekna framhaldsskóla.

Þetta kemur fram í bókun hans sem var samþykkt í dag.

Rætt var um samræmd próf í grunnskólum á fundi skóla- og frístundaráðs. Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis og Menntamálastofnunar komu á fundinn til að svara spurningum fulltrúa ráðsins, að því er segir í tilkynningu.

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata samþykktu eftirfarandi bókun á fundinum:

„Meirihlutinn gagnrýnir harðlega að niðurstöður samræmdra prófa í 9. bekk grunnskóla geti ráðið úrslitum um inntöku nemenda í tiltekna framhaldsskóla. Það gengur gegn yfirlýstum tilgangi samræmdu prófanna sem er að veita nemendum og kennurum þeirra leiðsagnarmat til að stuðla að framförum nemenda í efstu bekkjum grunnskólans og grefur undan námsmatskerfi grunnskólanna sjálfra. Þá vekur furðu ákvörðun um að prófa ekki ritun sem stangast á við ráðleggingar fagráðs um náms- og gæðamat Menntamálastofnunar. Skorað er á mennta- og menningarmálaráðherra að kveða skýrt á um að einkunnir úr samræmdum prófum í 9. bekk skuli ekki nýttar í þeim tilgangi að velja nemendur inn í framhaldsskóla.“

Áheyrnarfulltrúi foreldra og áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara lögðu einnig fram bókanir á fundinum. Þar er lýst er yfir þungum áhyggjum af þeim breytingum sem gerðar voru í desember 2016 á reglugerð um innritun í framhaldsskóla og heimilar skólum að taka mið af ýmsum viðbótargögnum við innritun, s.s. samræmdra prófa.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert