Myndband: Stórhættulegt athæfi á Reykjanesbrautinni

Tveimur tæknimönnum hjá Rúko brá heldur betur í brún í dag þegar þeir óku eftir Reykjanesbrautinni, í átt að bænum, og mættu þar rútu sem kom á fullri ferð á móti þeim á öfugum vegarhelmingi.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi þurftu bílar að víkja snarlega út í kant svo rútan kæmist sína leið. 

„Við vorum með myndavélina í mælaborðinu í gangi, eins og alltaf, og skyndilega sáum við bílana á undan okkur kippast til hliðar og svo þessa rútu koma á móti okkur öfugu megin við vegriðið,“ segir Haraldur Ingþórsson í samtali við mbl.is.

Haraldur var farþegi í bíl hjá vinnufélaga sínum, Vilhjálmi Magnússyni, þegar atvikið átti sér en þeir félagar voru á leið aftur í bæinn eftir að hafa verið við skoðun á vél sem tengist framkvæmdunum á Reykjanesbrautinni.

Ógnvekjandi aðstæður

Segir Haraldur mikil mildi að nægt pláss hafi verið í vegkantinum fyrir bílana til að víkja fyrir rútunni.

„Vilhjálmur fylgdist svo með rútunni í baksýnisspeglinum og sá hana keyra áfram á öfugum vegarhelmingi eða alla vega svo langt sem hann náði að fylgja henni eftir í speglinum. Það kemur fljótlega þarna brekka og blindhæð fyrir aftan okkur en við vitum svo ekkert hvernig bílarnir sem komu á eftir okkur brugðust við,“ segir Haraldur og bætir við að þeim hafi brugðið verulega við atvikið.

„Við erum ekki fremsti bíllinn sem mætir rútunni og vorum á góðum stað, með nóg pláss við hliðina á okkur. Við sáum aðra bíla á undan okkur víkja svo við höfðum nægan tíma til að bregðast við. Þannig að það varð aldrei svona hræðslumóment hjá okkur en það var engu að síður ógnvekjandi að sjá rútuna koma þarna á móti okkur.“

Lánsamir að hafa náð að víkja

Aðspurður segist Haraldur ekki hafa tekið eftir því hvort einhverjir farþegar hafi verið um borð í rútunni. Tekur hann fram í kjölfarið að einnig hafi verið erfitt að lesa í andlit ökumanns rútunnar hvort hann gerði sér grein fyrir hættunni sem hann væri að skapa.

„Mér sýndist rútan vera ómerkt og vera svona týpísk bílaleigurúta en það er rétt að nefna að bílarnir sem voru fyrir aftan okkur höfðu miklu minna pláss en við til að víkja. Við vorum bara svo lánsamir að vera akkúrat staddir við afreinina sem liggur að álverinu.“

Veist þú meira um málið? Sendu okkur þá endilega ábendingu á frettir@mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert