Ný búvörulög samþykkt

Meirihluti atvinnuveganefndar lagði fram umdeildar breytingar á frumvarpinu. Á mynd …
Meirihluti atvinnuveganefndar lagði fram umdeildar breytingar á frumvarpinu. Á mynd er Þórarinn Ingi Pétursson, formaður nefndarinnar.

Frumvarp um ný búvörulög var samþykkt eftir þriðju umræðu á Alþingi í dag, þrátt fyrir óskir um frestun atkvæðagreiðslu frá stjórnarandstöðunni og viðvaranir frá ASÍ, Neytendasamtökunum og fleiri hagsmunasamtökum.

Breyt­ing­ar á bú­vöru­lög­um, sem lagðar voru til af meirihluta atvinnuveganefndar, verið gangrýndar fyrir að ganga lengra en hið upp­haf­lega frum­varp. 26 kusu með en 19 á móti.

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar, Gísli Rafn Ólafsson þingmaður Pírata og Hanna Katrín Friðriksson þingkona Viðreisnar voru meðal þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem óskuðu eftir frestun. En svo varð ekki. 

Óttast einokun

Breyt­ing­arn­ar fela m.a. í sér und­anþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá sam­keppn­is­lög­um og gerir þeim auðveldara fyrir að sameinast.

„Sem þýðir það að við verðum komin með Kjötafurðir hf. Væntanlega eitt fyrirtæki sem sér um allt og hefur þar af leiðandi orðið einokunarstöðu á Íslandi og getur hækkað verðið gagnvart okkur neytendum án þess að við getum nokkuð eða gert og það sama gildir um það hvað er borgað til bænda því það verður bara ein afurðastöð eftir,“ sagði Gísli Rafn í ræðustól Alþingis.

ASÍ, VR, Neyt­enda­sam­tök­in, Sam­tök versl­un­ar og þjón­ustu og Fé­lag at­vinnu­rek­enda hafa varað við samþykkt frumvarpsins og segja það ganga gegn hagsmunum almennings.

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður pírata.
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður pírata. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Samkeppnin komi erlendis frá

Formaður nefndarinnar, Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður Framsóknar segir aftur á móti að neytendur séu hafðir í fyrirrúmi í þessum breytingum. „Það verða engir bændur nema það séu neytendur sem neyta vörunnar þeirra.“

Þórarinn sagði að ef bændur og afurðastöðvar gætu ekki boðið neytendum upp á hágæðavöru á góðu verði sem stenst samkeppni við innlenda framleiðslu, þá yrði engin innlend matvælaframleiðsla hvort eð er hér eftir.

„Þannig að neytendur eru alltaf í fyrirrúmi þegar verið er að fjalla um innlenda matvælaframleiðslu og gleymum því ekki að við erum með samkeppni á matvörumarkaði. Hún kemur erlendis frá,“ sagði hann.

Frétt hefur verið breytt: Upprunalega kom fram í frétta að atkvæðagreiðslu hefði verið frestað, en það var aðeins um skamma stund og var frumvarpið samþykkt stuttu síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert