„Hvers konar framkoma er þetta við bændur?“

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir ný búvöruleg setja mikið traust á bændur og afurðastöðvar í landinu. Enginn hafi skilað landinu í betra ásigkomulagi til landsmanna en bændur.

Undir dagskrárliðnum störf þingsins á Alþingi sagði hann merkilegt að þeir sem hefðu barist fyrir kjörum almennings á almennum vinnumarkaði réðust nú á afkomu bænda.

Hann sagði einnig merkilegt að þeir sem væru verndaðir á íslenskum vinnumarkaði fyrir innflutningi á ódýru vinnuafli frá Evrópusambandinu skyldu ráðast á bændur fyrir að vilja sitja við sama borð og bændur í nágrannalöndum okkar. „Hvers konar framkoma er þetta við bændur?” sagði Ásmundur og skaut þar á verkalýðsforystuna.

Hann kvaðst jafnframt styðja íslenska bændur til framfara.

Nauðsynlegar breytingar

Halldóra Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, ræddi einnig um nýju búvörulögin.

Hún sagði samkeppnina hafa færst frá því að vera á milli íslenskra bænda sem fylgdu sömu stöðlum yfir í að snúast um íslenska bændur á móti evrópskri framleiðslu þar sem lögmálin væru allt önnur. Meira að segja væri verið að flytja lambakjöt til Íslands.

Þessu hefði verið brugðist við með því að gera innlendum aðilum kleift að sameinast, hagræða og lækka framleiðslukostnað. Það hefði verið framfaraskref.

„Þessar breytingar voru nauðsynlegar til að bregðast við döprum rekstrargrundvelli innlendrar kjötframleiðslu og stuðla að jöfnun samkeppnisskilyrða kjötafurðastöðva við innflutninginn,” sagði Halldóra.

Sigmar Guðmundsson.
Sigmar Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafa vondan málstað að verja

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði þá sem stilltu því upp að ASÍ, Neytendasamtökin og Samkeppniseftirlitið væru óvinir bænda hefðu vondan málstað að verja.

Áður hafði hann vísað í Facebook-færslu Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, þar sem hann minnist á að fyrirtækin sem fái víðtæka undanþágu frá samkeppnislögum séu ekki aðeins lítil sláturhús á barmi gjaldþrots heldur einnig stór fyrirtæki sem hafi skilað miklum hagnaði.  

Sigmar sagði ekki gagnlegt fyrir umræðuna að mega ekki gagnrýna „óskaplega miðstýrt landbúnaðarkerfi sem skilar bændunum sjálfum knöppum kjörum án þess að það sé sett í annarlegt samhengi”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert