Tekur „aldeilis ekki“ undir gagnrýnina

Sigurður Ingi Jóhannsson tekur ekki undir gagnrýni á ný búvörulög sem voru samþykkt í gær. Breyt­ing­arn­ar fela meðal annars í sér und­anþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá sam­keppn­is­lög­um og ger­ir þeim auðveld­ara fyr­ir að sam­ein­ast.

„Það er einfaldlega þannig að núna loksins eru íslenskir bændur ekki lengur í þeirri óeðlilegu aðstöðu að vera keppa við risafyrirtæki í Evrópu í einhverri meintri samkeppnislöggjöf á Íslandi, heldur sitja við sama borð og kollegar þeirra í allri Evrópu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.

Sumir gagnrýnt lögin

Samkeppniseftirlitið, ákveðin hagsmunasamtök, stéttarfélög og sumir stjórnarandstöðuþingmenn hafa gagnrýnt nýju lögin og segja þau til þess fallin að minnka samkeppni og þar af leiðandi geti það leitt til hærra vöruverðs.

Tekur þú undir þessa gagnrýni?

„Nei, bara aldeilis ekki,“ segir Sigurður.

Líkir þessu saman við undanþágu fyrir mjólkurframleiðendur

Hann segir að þegar þessari samkeppnislöggjöf var komið á á Íslandi og í nálægum ríkjum upp úr níunda áratugnum hafi lítil fyrirtæki bænda verið undanskilin þessari löggjöf alls staðar nema á Íslandi.

„Einhverja hluta vegna var það ekki gert á Íslandi. Því er búið að vera haldið fram alla tíð síðan að þetta sé einhver svakaleg spurning um að samkeppni þeirra – bændanna - muni gera svo vont fyrir neytendur. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar farið var í að setja undanþágu fyrir mjólkuriðnaðinn þá varð til gríðarleg hagræðing.

Hluti af þeim fjármunum fóru til bænda og hluti fór til neytenda, það hefur verið sýnt fram á það skýrt. Núna, 20 árum eftir að það var gert, erum við loksins að koma öðrum bændum á sama stað og mjólkurframleiðendur voru frá 2004 og allir aðrir bændur í Evrópu hafa búið við.“

Hagræðingin mun skila sér til bænda og neytenda

Spurður hvort að þessi meinta hagræðing fyrir bændur muni skila sér til neytenda segir hann svo vera.

„Já þessi hagræðing, með sama hætti og í mjólkuriðnaðinum, mun skila sér bæði til bænda og neytenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert