Austurríkismaður viðurkennir brot sín

Josef Fritzl.
Josef Fritzl. AP

Sjötíu og þriggja ára gamall Austurríkismaður, sem varð uppvís að því að halda dóttur sinni fanginni í neðanjarðarbyrgi í kynlífsþrælkun í 24 ár, hefur játað brot sín í stórum dráttum, að sögn lögreglu í bænum Amstetten í Austurríki.

Austurríkismenn eru slegnir vegna málsins, sem minnir á mál austurrísku stúlkunnar Natöschu Kampusch, sem haldið var fanginni í 8 ár í neðanjarðarbyrgi.

Sky sjónvarpsstöðin hefur eftir Franz Polzer, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar á svæðinu, að maðurinn, sem heitir Josef Fritzl, hafi viðurkennt að hafa læst dóttur sína inni í 24 ár og eignast með henni 7 börn. Börnin eru nú á aldrinum fimm til 20 ára.

Lögregla er enn að rannsaka neðanjarðarbyrgið undir húsi Fritzl í borginni Amstetten í Austuríki, þar sem dótturinni, Elisabeth Fritzl, og þremur börnum hennar var haldið fanginni í þremur herbergjum. Talsmaður lögreglunnar segir, að byrgið, sem var með þremur herbergjum, hafi verið innréttað eins og íbúð. Lofthæðin er aðeins um 1,7 metrar.

Þrjú barnanna bjuggu með móðurinni í kjallaranum en þrjú þeirra hinsvegar ásamt afa sínum [föður] og ömmu á efri hæðum hússins. Talið er að hvorki börnin né amma þeirra hafi vitað af Elisabeth og börnunum í kjallaranum.

Lokkaði dóttur sína niður í kjallarann

Upp komst um fangavist Elisabeth, sem nú er 42 ára gömul, þegar 19 ára dóttir hennar, sem bjó með henni í kjallaranum, þurfti að leggjast inn á sjúkrahús. Læknarnir hófu þá leit að móðurinni sem leiddi til handtöku Josefs síðastliðinn laugardag.

Samkvæmt upplýsingum sem austurríska lögreglan veitti fréttastofunni ORF sagði Elisabeth frá því að í ágúst 1984 hefði faðir hennar lokkað hana niður í kjallara hússins, handjárnað og læst hana inni í einu herbergjanna.

Frá ellefu ára aldri hefði hann beitt hana kynferðisofbeldi og þau eignast sjö börn saman. Þrjú barnanna sem bjuggu með móðurinni í kjallaranum komu út undir bert loft í fyrsta skipti á ævi sinni í gær. Lík barnsins sem lést stuttu eftir fæðingu fjarlægði Josef úr kjallaranum og brenndi.

Þröngur og gluggalaus kjallari

Lögreglan opnaði vistarverur konunnar í gærkvöldi. Þær voru faldar á bak við hillu í vinnuherbergi. Dyrnar voru læstar með raflás sem lögreglan opnaði með aðstoð Josefs en vilji hans til samstarfs er talin vísbending um að hann muni senn játa. 

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar virðist Josef Fritzl hafa skipulagt athæfið vel. Hann tilkynnti hvarf stúlkunnar árið 1984 og sagði hana hafa gengið til liðs við sértrúarsöfnuð. Fritzl  falsaði jafnframt bréf í nafni dóttur sinnar þar sem stóð að hún gæti ekki sinnt þremur barnanna og hefði því skilið þau eftir hjá ömmu sinni og afa. 

Elisabeth og synir hennar tveir eru nú í umsjá lækna og sálfræðinga en enn hefur ekki komið í ljós hvort Josef Fritzl  beitti börnin kynferðisofbeldi.

Úr jarðhýsinu.
Úr jarðhýsinu. AP
Afar lágt er til lofts í jarðhýsinu þar sem konunni …
Afar lágt er til lofts í jarðhýsinu þar sem konunni og börnum hennar var haldið föngnum. AP
Fjölmiðlamenn safnast saman við hús fjölskyldunnar í Amstetten.
Fjölmiðlamenn safnast saman við hús fjölskyldunnar í Amstetten. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert