Fréttaskýring: Af hvaða hvötum kveikja menn elda?

Hvað í ósköpunum fær fólk til að fremja slíkan glæp? er spurning sem brennur á mörgum Áströlum eftir að skýrt var frá því að talið væri að brennuvargar hefðu kveikt nokkra af skógareldunum mannskæðu sem geisað hafa í Viktoríuríki í Ástralíu.

Á ári hverju kvikna um 20.000-30.000 skógareldar í Ástralíu og talið er að allt að helmingur þeirra sé kveiktur af ásettu ráði, samkvæmt skýrslu frá Afbrotafræðistofnun Ástralíu. Árlegur kostnaður samfélagsins af eldunum nemur um 1,6 milljörðum ástralskra dollara, sem svarar nær 120 milljörðum króna.

Ástralski afbrotafræðingurinn Damon Muller hefur skyggnst inn í hugarfylgsni brennuvarga. „Þegar fólk kveikir í byggingum eða þvíumlíku má yfirleitt rekja það til hefndar, fjárhagslegs ábata, tryggingasvika,“ hefur ástralski fréttavefurinn brisbanetimes.com.au eftir Muller. „En þegar skógareldar eru kveiktir er ástæðan miklu oftar af sálrænum toga. Þeir eru oftast kveiktir til að fullnægja einhverri ákveðinni sálrænni þörf – hvort sem það er þörf fyrir viðurkenningu, spennu eða jafnvel hvöt til að leika hetju með því að kveikja eld og vara síðan fólk við honum.“

Margir brennuvarganna búa í grennd við skógana sem kveikt er í og sumir þeirra taka jafnvel þátt í slökkvistarfinu sem sjálfboðaliðar, að sögn Roberts Heaths, sálfræðiprófessors við Háskóla Suður-Ástralíu. „Sumir finna til vanmáttarkenndar og kveikja elda til að finnast þeir hafa stjórn á umhverfinu,“ hefur fréttastofan Reuters eftir Heath. „Annar hópur laðast sálrænt að eldi og sækist eftir því að sjá hluti brenna. Þriðji hópurinn hefur þörf fyrir að vera álitinn hetja og hneigist því til þess að kveikja elda í því skyni að fá tækifæri til að sýna hetjulund sína.“

Rebekah Doley, sálfræðingur við Bond-háskóla í Queensland, segir að brennuvargar kveiki stundum aftur í á stöðum þar sem eldar hafa verið slökktir. „Þegar lögreglan þrengir hringinn um þá eiga þeir það til að kveikja fleiri elda til að þeim finnist þeir aftur hafa stjórn á umhverfinu og til að sanna að þeir séu snjallari en yfirvöldin,“ hefur fréttavefur BBC eftir sálfræðingnum.

Ekki haldnir „íkveikjuæði“

Doley bætir því við að brennuvargarnir fái mikið „kikk“ út úr athyglinni sem skógareldarnir vekja. Þeir komi oft aftur á staðinn til að fylgjast með störfum slökkviliðs og björgunarmanna. Mikil umfjöllun fjölmiðla um eldana geti einnig orðið til þess að aðrir api eftir brennuvörgunum.

Muller telur að flestir brennuvarganna geri sér ekki grein fyrir því að fullu hversu alvarlegar afleiðingar íkveikjurnar geta haft. Hann leggur áherslu á að brennuvargarnir séu í fæstum tilvikum haldnir „íkveikjuæði“ (e. pyromania), þ.e. sjúklegri áráttu til að horfa á eld og kveikja í.

Rannsóknir benda til þess að flestir brennuvarganna séu fátækir, karlmenn og á fertugsaldri. Margir þeirra hafa verið staðnir að annars konar glæpum. Taka ber þó fram að tiltölulega fáir brennuvargar hafa verið staðnir að verki og því er varasamt að alhæfa um félagslega stöðu þeirra. Slyngustu brennuvargarnir nást yfirleitt ekki.

Skógareldarnir hafa logað í rúma viku í Ástralíu.
Skógareldarnir hafa logað í rúma viku í Ástralíu. Reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert