Mannskæð flóð í Tyrklandi

Að minnsta kosti níu manns hafa látið lífið í miklum flóðum í norðvesturhluta Tyrklands. Nokkurra er saknað.

Óstaðfestar fregnir herma að tugir líka hafi fundist í útjaðri Istanbul. Vegir í nágrenni alþjóðaflugvallarins í Istanbul voru umflotnir vatni og lokaðist fjöldi fólks inni í bílum sínum sem flutu með straumnum. Víða var yfir tveggja metra djúpt vatn á vegum.

Lögregla og her notuðu þyrlur til að bjarga fjölda fólks af húsaþökum og bátar voru notaðir við björgun fólks úr bílum á þjóðvegum.

Að minnsta kosti tvær brýr í norðvesturhluta landsins hrundu.

Úrhellisrigning hefur verið í Tyrklandi síðustu daga og segja veðurfræðingar þetta mestu úrkomu sem mælst hefur í Istanbul í 80 ár. Áframhaldandi úrkomu er spáð næstu daga.

Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert