Englandsdrottning hvetur til heimsfriðar

Elísabet Englandsdrottning ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í nótt en hún er nú í heimsókn í New York. Drottningin heimsótti höfuðstöðvar SÞ síðast árið 1957 þegar hún var nýlega tekin við krúnunni en Elísabet er nú 84 ára að aldri.

Í ávarpi sínu  bar drottningin lof á það starf, sem unnið hefur verið hjá Sameinuðu þjóðunum og sagði, að erfiðasti þátturinn af starfi leiðtoga sé að viðhalda friði. Nú bættist baráttan við hryðjuverkamenn og hlýnun andrúmsloftsins við þau verkefni, sem SÞ þyrfti að fást við.

Þá gat hún þess, að hún hefði heimsótt SÞ fyrir 53 árum þegar samtökin voru nýlega stofnuð.

„Þegar fólk eftir 53 ár lítur til baka á það sem við gerðum mun það án efa telja að margt sé gamaldags. En von mín er sú, þegar komandi kynslóðir dæma gerðir okkar, að vilji okkar til að taka af skarið...  muni standast tímans tönn."

Englandsdrottning skoðaði einnig Ground Zero, svæðið á Manhattan þar sem turnar World Trade Center stóðu og nærri 3000 manns létu lífið þegar tveimur flugvélum var flogið á turnana 11. september 2001. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert