Smokkaummælum páfa fagnað í Afríku

Benedikt XVI páfi.
Benedikt XVI páfi. TONY GENTILE

Hjálparstofnanir og mannréttindasamtök í Afríku taka fagnandi viðsnúningi Benedikts XVI páfa á afstöðu kaþólsku kirkjunnar til smokksins. Telja þau ummæli hans, í nýrri bók sem gefin var út í dag, marka tímamót í baráttunni gegn útbreiðslu alnæmis.

Í bókinni, sem útleggst á íslensku sem „Ljós heimsins, páfinn, kirkjan og tímanna tákn", er m.a. haft eftir páfa að kaþólska kirkjan líti ekki á smokka sem „raunverulega eða siðferðislega lausn“. Hann viðurkennir hinsvegar í fyrsta skipti að smokka megi nota við vissar kringumstæðum „í þeim tilgangi að draga úr hættunni á smiti, sem fyrsta skref í nýja átt til að stunda kynlíf á mannlegri hátt".

Talsmaður alnæmissamtakanna Positive-Generation í Kamerún segir að þessi ummæli páfa séu stórt skref þar sem kirkjan hafi nú samþykkt að smokkurinn sé nauðsynlegt tæki í baráttunni gegn alnæmi. Fleiri taka í sama streng og telja að þessi afstaða páfa muni hjálpa til við að draga úr alnæmisfaraldrinum og efla forvarnir.  17,77% Afríkubúa eru kaþólikkar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert