Umferðaröngþveiti í París vegna ísingar

París
París Reuters

Innanríkisráðherra Frakklands, Brice Hortefeux, hefur beðið fólk um að nota almenningssamgöngur í París og næsta nágrenni í dag og skilja einkabíla eftir heima vegna mikillar ísingar á götum. Í gær snjóaði gríðarlega í borginni og hefur ekki snjóað jafn mikið í París í aldarfjórðung.

Þúsundir farþega eyddu nóttinni á aðalflugvelli Parísarborgar, Roissy Charles de Gaulle, þar sem aflýsa þurfti flestum flugferðum um flugvöllinn í gær. Þúsundir ökumanna neyddust til þess að eyða nóttinni í ökutækjum sínum á helstu hraðbrautum í nágrenni Parísar þar sem ísing og snjór setti allt á annan endann í umferðarmálum á Parísar-svæðinu.

Vonast er til þess að samgöngur verði komnar í eðlilegt horf síðar í dag en til að mynda þurfti að loka Eiffel-turninum vegna snjókomunnar í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert