Komst inn í höllu drottningar í Edinborg

Jason Hatch í gervi Batmans á syllu við aðalsvalir Buckinghamhallar.
Jason Hatch í gervi Batmans á syllu við aðalsvalir Buckinghamhallar. AP

Breskum blaðamanni tókst að villa á sér heimildir í gervi starfsmanns Holyroodhouse-hallar í Edinborg í Skotlandi þar sem Elísabet drottning dvelst gjarnan, og komast í gegnum allar öryggisvarnir. Gerðist þetta aðeins um tveimur vikum eftir að maður í gervi Leðurblökumannsins komst í gegnum öryggisvarnir Buckingham-hallar í Lundúnum.

Blaðamanninum tókst að komast framhjá öryggisvörðum í Holyroodhouse-höll, samkvæmt upplýsingum skoskra lögregluyfirvalda, og átti ekki eftir nema nokkra metra að íbúð drottningar þegar öryggisverði gómuðu hann. En boðflennunni tókst að slíta sig lausan og flúði síðan af vettvangi. Lögreglu var gert viðvart og leit hófst að manninum en án árangurs.

Rannsóknarlögreglumenn unnu að rannsókn málsins og reynt að komast að hver boðflennan væri og hvernig stæði á að hann komst inn í íbúðarálmu hallarinnar en án árangurs. En í ljós er komið að um blaðamann Sunday Times var að ræða, að sögn Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.

Atvikið varð 72 stundum áður en Karl, prins af Wales, ætlaði að koma til hallarinnar og Elísabet móðir hans ráðgerði einnig að dvelja þar eftir tvær vikur meðan hún væri við opnun nýrrar þinghúsbyggingar Skota. Ekki eru nema um tvær vikur síðan meðlimur baráttusamtaka forræðislausra feðra komst í gervi Leðurblökumannsins í gegnum allar öryggisvarnir Buckingham-hallar í Lundúnum og klifraði upp á syllu þar lögreglu og öryggisvörðum til hrellingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert