Sérviturs bresks jarls leitað í Frakklandi

Franska lögreglan hefur hafi rannsókn á hvarfi litskrúðugs 66 ára ensks aristókrata, jarlsins af Shaftesbury, sem varið hefur tíma sínum undanfarin ár að mestu til gjálífis á frönsku ríverunni.

Að sögn lögreglunnar í bænum Grasse í Suður-Frakklandi, hefur ekkert spurst til hins 66 ára gamla Anthony Ashley-Cooper, 10. jarls af Shaftesbury, frá 5. nóvember í borginni Cannes, en þar hefur hann vanalega dvalist.

Hefur verið lýst eftir vitnum sem kunna að búa yfir einhverri vitneskju um ferðir jarlsins í millitíðinni. Að sögn manna sem koma við sögu rannsóknar á hvarfi hans er ekkert á þessu stigi sem þykir benda til að hvarfið sé annað en sjálfviljugt.

Þó mun liggja fyrir að fé hafi verið dregið af reikningum hans í banka í London eftir að jarlinn hvarf, ekki af honum sjálfum þó. Tilraunir til að ná sambandi við manninn með því að hringja í farsíma hans hafa reynst árangurslausar.

Jarlinn af Shaftesbury á þrjú hjónabönd að baki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert