Leðurblökumaðurinn tekinn niður af syllu á Buckingham-höll

Jason Hatch kominn niður á jörðina í fylgd lögregluþjóna.
Jason Hatch kominn niður á jörðina í fylgd lögregluþjóna. AP

Búið er að taka Leðurblökumanninn, hinn 33 ára tveggja barna föður Jason Hatch, niður af syllu þeirri sem hann tyllti sér á í dag á vegg Buckingham-hallar. Hafði hann þá staðið þar í mestu makindum í rúmar fimm klukkustundir til að vekja athygli á málstað forræðislausra feðra

Maðurin hafði komið sér fyrir í gervi Leðurblökumannsins til að vekja athygli á örlögum forræðislausra feðra. Samtökin, sem Hatch er fulltrúi fyrir, nefna sig Fathers 4 Justice og hafa oft staðið fyrir óvenjulegum uppákomum til að koma málstað sínum á framfæri.

Leðurblökumaðurinn komst upp á sylluna, sem er rétt við svalir þær á Buckingham-höll þar sem Elísabet drottning og fjölskylda koma sér fyrir við hátíðleg tækifæri og veifa til almúgans. Hefur atvikinu verið lýst sem enn einu áfallinu hvað áhrærir öryggisgæslu við bresku hirðina.

Tveir lögreglumenn komu sér fyrir í körfu lítils körfubíls, sem lyft var upp að Leðurblökumanninum um kl. 17:15 að staðartíma, 18:15 að íslenskum tíma. Settur var á hann hvítur öryggshjálmur og veifaði hann og klappaði saman höndum á meðan körfunni var komið niður á jörðina.

Enginn úr konungsfjölskyldunni var í höllinni þegar Hatch klifraði upp á sylluna en Elísabet drottning er í Balmoral-kastala í Skotlandi um þessar mundir.

Að sögn talsmanns samtakanna Fathers 4 Justice klifraði Jason Hatch upp álstiga, sem hann og félagi hans, maður að nafni Dave Pyke, í gervi Robins félaga Leðurblökumannsins, sem þeir báru með sér. Pyke komst ekki alla leið þar sem lögregla þvingaði hann til að koma niður með því að beina að honum byssum. Mönnunum tveimur hefði gengið greiðlega að komast yfir girðingu þá, sem umlykur hallargarðinn á meðan meðan félagar þeirra hefðu dregið athygli lögreglu frá þeim með ólátum við aðalhliðið.

Að sögn Dave Pyke ætti hver sem er að komast það sem hann og Hatch komust í dag, þeir væru ósköp venjulegir menn, engir ofurhugar.

Samtökin Fathers 4 Justice hafa oft staðið fyrir óvenjulegum uppákomum til að koma málstað sínum á framfæri.

Einn félagi í samtökunum klifraði um helgina upp í Augað í Lundúnum, risastórt Parísarhjól, sem stendur á bökkum árinnar Thames. Sá var klæddur eins og Köngulóarmaðurinn.

Í maí réðust tveir félagar í samtökunum inn í breska þinghúsið þar sem fundur stóð yfir og köstuðu smokki, fullum af fjólubláu hveiti, í Tony Blair forsætisráðherra. Byggingin var rýmd í klukkutíma á eftir meðan rannsakað var hvort hætta stafaði af hveitinu.

Samtökin voru stofnuð í desember 2002 og berjast fyrir rétti feðra og afa til að umgangast börn sín í kjölfar hjónaskilnaða. Segjast samtökin á vefsíðu sinni beita aðferðum án ofbeldis en með húmor.

Maður, sem naut stuðnings samtakanna, komst í fréttirnar í nóvember á síðasta ári þegar hann dvaldi, klæddur eins og Köngulóarmaðurinn, í sex daga í kranabómu nálægt Tower of London.

Mánuði síðar olli félagi í samtökunum miklu umferðaröngþveiti þegar hann tók sér stöðu á einni af aðalgötunum inn í Lundúnir íklæddur jólasveinabúningi.

Leðurblökumaðurinn Jason Hatch á syllunni á Buckingham-höll fyrr í dag.
Leðurblökumaðurinn Jason Hatch á syllunni á Buckingham-höll fyrr í dag. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert