Rauði kross Íslands mótmælir ákvörðun stjórnvalda

Rauði kross Íslands harmar þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að endursenda fjóra hælisleitendur til Grikklands í morgun á grundvelli Dublinar reglugerðarinnar. Rauði krossinn mótmælti þessum flutningi við stjórnvöld í gær um leið og fréttir bárust af honum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Rauði kross Íslands hefur sent frá sér. 

„Þessi flutningur er í andstöðu við tilmæli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossins og fleiri aðila sem hafa farið þess á leit við ríki sem taka þátt í Dublin samstarfinu að hælisleitendur séu ekki endursendir til Grikklands á meðan að bæði aðbúnaði og málsmeðferð sé svo ábótavant sem raun ber vitni.

Rauði kross Íslands hefur ítrekað beint þeim tilmælum til dómsmálaráðherra að hælisleitendur verði ekki sendir til Grikklands að svo stöddu. Því til grundvallar eru meðal annars skýrslur Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og skýrsla Rauða krossins í Austurríki sem lögð var fram í ágúst síðastliðnum.

Það er miður að íslensk stjórnvöld hafi tekið þessa ákvörðun en með henni fylgja þau fordæmi annarra norrænna ríkja sem einnig taka þátt í Dublin samstarfinu.

Rauði krossinn hefur áhyggjur af afdrifum þeirra hælisleitenda sem sendir vori til Grikklands í morgun og mun reyna að setja sig í samband við þá og stuðla að því að málum þeirra verði fylgt eftir,“ segir í yfirlýsingu Rauða kross Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert