Óli Palli: Vildum fara til Svíþjóðar

„Þetta var fín frammistaða hjá okkur og við héldum markinu hreinu eins og við ætluðum að gera og unnum mjög góðan 2:0-sigur,“ sagði Ólafur Páll Snorrason fyrirliði FH að loknum 2:0-sigri gegn hvítrússneska liðinu Neman Grodno í 2. umferð Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu í kvöld. FH vann einvígið samanlagt 3:1 og mætir Elfsborg frá Svíþjóð í 3. umferð forkeppninnar.

„Það var mikið hugsað um leik Elfsborgar og Inter Bakú fyrir okkar leik í dag. Ég viðurkenni það. Auðvitað vildi maður fara til Svíþjóðar og það gekk eftir, þannig við erum mjög ánægðir með það,“ sagði Ólafur Páll sem er feginn að þurfa ekki að fara í lengra ferðalag en til Svíþjóðar í næstu umferð.

„Það er frábært fyrir félagið að ná enn einu Evrópuárinu og við erum ekkert hættir núna. Við ætlum að gera allt sem við getum til þess að halda okkur áfram inn í þessari Evrópukeppni og það er bara strax í næstu viku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert