Bætir markaleysið upp á öðrum vígstöðvum

Ólafur Páll Snorrason.
Ólafur Páll Snorrason. mbl.is/Styrmir Kári

„Við vissum að þetta yrði þolinmæðisvinna. Við höfum unnið marga leiki á síðustu mínútunum svo við vorum ekkert svakalega stressaðir og það var því ekki kominn neinn fiðringur,“ sagði Ólafur Páll Snorrason, fyrirliði FH-inga, í samtali við Morgunblaðið í gær en hann er leikmaður 17. umferðar Pepsi-deildar karla að mati blaðsins.

Ólafur lagði upp öll þrjú mörk FH í 3:2-sigri á Víkingi á mánudagskvöldið sem kom Hafnfirðingum í toppsætið á ný.

FH komst yfir í fyrsta sinn í leiknum á 85. mínútu en hafði þó lent undir snemma í fyrri hálfleik, en jafnaði metin strax í næstu sókn.

„Sem betur fer, það hjálpaði okkur með framhaldið að jafna metin strax. Það ýtti undir sjálfstraustið og við kláruðum leikinn vel enda gríðarlega mikilvægt að vinna. Eftir að Stjarnan gerði jafntefli var þarna tækifæri að fara aftur á toppinn og því var gott að ná í þrjú stig,“ sagði Ólafur Páll.

FH-ingar eru enn taplausir og nú með tveggja stiga forskot í efsta sætinu, nokkuð sem er þó ekki í sérstökum forgangi hjá liðinu. „Fyrst og fremst ætlum við að vinna mótið, það er fyrsta markmiðið og hvernig sem við gerum það, taplausir eða ekki, þá væri það bara bónus. Það eru engar slíkar pælingar að reyna að fara í gegnum þetta taplausir.“

Sjá allt viðtalið við Ólaf Pál í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert