Ingvar: Hrikalega illa spilað hjá okkur

Ingvar Jónsson ver frá Michael Abnett úr dauðafæri í leiknum …
Ingvar Jónsson ver frá Michael Abnett úr dauðafæri í leiknum í dag. mbl.is/Ómar

„Þetta var hrikalega illa spilaður leikur af okkar hálfu, sérstaklega fyrri hálfleikurinn,“ sagði Ingvar Jónsson markvörður Stjörnunnar sem var maður leiksins í 1:0-sigri liðsins á Víkingi R. í Pepsi-deildinni í kvöld. Sigurinn fleytti Stjörnunni upp að hlið FH á toppnum.

„Þeir yfirspiluðu okkur að mörgu leyti. Við reyndar skoruðum flott mark en gátum svo ekki mikið meira í þessum leik,“ sagði Ingvar en Stjarnan skoraði mark sitt á 9. mínútu. Eftir það voru Víkingar mun sterkari og það reyndi svo sannarlega á Ingvar sem átti frábæran leik í markinu.

„Það reyndi sérstaklega á í fyrri hálfleik. Ég var reyndar heppinn eftir aukaspyrnuna sem ég varði því ég gaf lélegt frákast en náði að bjarga því sjálfur. Já, ég átti fínan leik,“ sagði Ingvar.

„Ég hef lítið haldið hreinu í sumar og var búinn að bíða lengi eftir því þar til í leiknum gegn Keflavík [í síðustu umferð]. Það er sterkt að ná tveimur svona leikjum í röð og vonandi verða þeir þrír í viðbót,“ sagði Ingvar.

Þegar þrjár umferðir eru eftir eru FH og Stjarnan jöfn að stigum en þau mætast í Kaplakrika í lokaumferðinni. FH er með mun betri markatölu.

„Þetta var skyldusigur fyrir okkur og allir leikir eru úrslitaleikir núna, þannig að ég er hrikalega svekktur með það hvernig við mættum til leiks og spiluðum. Það er ótrúlegt að við höfum náð í þrjú stig en það tókst. Menn mæta vonandi tilbúnir á sunnudaginn [gegn Fjölni] en annars erum við með breiðan hóp og þeir sem standa sig ekki fara bara á bekkinn,“ sagði Ingvar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert