Garðar nær líklega botnslagnum

Garðar Gunnlaugsson í leik með ÍA í sumar.
Garðar Gunnlaugsson í leik með ÍA í sumar. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Skagamenn endurheimta væntanlega sinn helsta sóknarmann, Garðar B. Gunnlaugsson, fyrir botnslaginn mikilvæga gegn Eyjamönnum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á sunnudaginn.

Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA segir í viðtali á vef félagsins að staðan á Garðari lofi mjög góðu, hann hafi æft með liðinu í rúma viku og að öllu óbreyttu verði hann í leikmannahópnum á sunnudaginn.

Garðar skoraði tvö af þremur mörkum sem Skagamenn gerðu í fyrstu fimm umferðum deildarinnar en hefur síðan verið frá keppni vegna meiðsla og misst af sex leikjum í deild og bikar.

Þá sagði Gunnlaugur að Árni Snær Ólafsson væri tilbúinn í markið á ný eftir að hafa misst af síðasta leik, gegn Val, vegna meiðsla.

Gunnar Kristjánsson, fyrrverandi leikmaður KR og Víkings, sem lék með KV í fyrra, hefur æft með Skagamönnum að undanförnu. Gunnlaugur segir óljóst hvort samið verði við hann en það skýrist eftir helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert