„Ansi erfitt að kyngja þessu“

Jóhann Berg Guðmundsson niðurlútur í leikslok.
Jóhann Berg Guðmundsson niðurlútur í leikslok. Ljósmynd/Alex Nicodim

Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði Íslands, var niðurlútur eftir 2:1-tap fyrir Úkraínu í úrslitaleik umspils um laust sæti á EM 2024 í knattspyrnu karla í Wroclaw í Póllandi í kvöld.

„Það er ansi erfitt að kyngja þessu, sérstaklega þegar við vorum komnir 1:0 yfir og vorum yfir í hálfleik. Þá eru 45 mínútur eftir og við fáum á okkur léleg mörk. Við föllum ansi aftarlega á völlinn og reynum auðvitað að verjast.

Svo höldum við ekki nógu vel í boltann heldur og það er auðvitað erfitt að halda þannig út í 90 mínútur. Það er samt grátlegt þegar maður er svona nálægt þessu að fá á sig tvö mörk og fara ekki á EM,“ sagði Jóhann í samtali við mbl.is eftir leik.

Eigum að geta varist þessu

Úkraína jafnaði metin á 54. mínútu eftir stöðugt áhlaup fyrstu mínúturnar í síðari hálfleik.

„Auðvitað bjuggumst við svo sem við því að það kæmi kraftur með þeim 1:0 undir og þannig séð á heimavelli.

Við komumst í gegnum það en svo er auðvitað erfitt að fá þetta mark á sig. Svo er hræðilegt að fá þetta annað mark á sig,“ sagði hann.

Jóhann svekktur eftir að Úkraína skoraði annað mark sitt.
Jóhann svekktur eftir að Úkraína skoraði annað mark sitt. Ljósmynd/Alex Nicodim

Hvað fer úrskeiðis í mörkunum sem Úkraína skorar?

„Fyrsta markið er náttúrlega skyndisókn hjá þeim og hann nær að komast inn á vinstri fótinn og klárar nokkuð vel. Við eigum þannig séð að geta varist þessu en svona er fótboltinn stundum. Svo er seinna markið.

Hann er einhvern veginn aleinn fyrir utan og ég fer út og reyni að hjálpa Jóni Degi [Þorsteinssyni] og svo er Mudrykinn [Mykhailo Mudryk] mættur inn af vinstri kantinum á miðjuna og klárar þetta ágætlega en auðvitað erum við með nógu mikið af mönnum til baka til að verjast þessu en gerðum það ekki,“ útskýrði Jóhann.

Augnablik sem við hefðum getað spilað meira

Áður en Mudryk skoraði sigurmarkið hafði íslenska liðið fært sig upp á skaftið og fékk 3-4 góð færi.

„Algjörlega, þegar við spiluðum boltanum vorum við hættulegir en því miður gerðum ekki nóg af því. Auðvitað erum við líka sterkir í að setja boltann upp á Gulla [Guðlaug Victor Pálsson], Andra [Lucas Guðjohnsen] eða Orra [Stein Óskarsson].

Það voru oft augnablik sem við hefðum getað spilað aðeins meira. Það er líka erfitt í svona leik, sérstaklega þegar þú ert 1:0 yfir, að taka ekki neina sénsa. Stundum þarftu að gera það en við gerðum kannski ekki nóg af því í dag,“ sagði fyrirliðinn.

Annað skiptið í röð

Annað Evrópumótið í röð situr Ísland eftir með sárt ennið eftir sárgrætileg töp í umspilsleikjum um laust sæti á mótinu.

Ísland tapaði 2:1 fyrir Ungverjalandi haustið 2020 fyrir EM árið 2021.

„Já, við vorum komnir 1:0 yfir í báðum leikjum og ansi stutt frá þessu. Það er gríðarlega erfitt að taka þessu en svona er fótboltinn og það er bara næsta mót, að reyna að koma sér þangað,“ sagði Jóhann að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert