Kom fyrir van Gaal en er spenntur fyrir framtíðinni

Bastian Schweinsteiger í baráttu við Sergio Agüero.
Bastian Schweinsteiger í baráttu við Sergio Agüero. AFP

„Ég kom til United vegna Louis van Gaal. Því hef ég ekkert slæmt um hann að segja,“ sagði Bastian Schweinsteiger, leikmaður Manchester United, um Louis van Gaal sem var rekinn frá Manchester United fyrir skömmu.

Schweinsteiger kom til United síðasta sumar frá Bayern München þar sem hann hafði eytt öllum ferlinum og unnið fjölmarga titla. Þjóðverjinn átti erfitt uppdráttar í Manchester og þótti tímabilið vera vonbrigði, bæði frammistöður hans og liðsins í heild. Engu að síður vann félagið FA-bikarinn og batt enda á tveggja ára titlaþurrð. Van Gaal var engu að síður látinn fara í kjölfar bikarúrslitaleiksins.

„Tvö ár voru liðin síðan United vann síðast titil og ég held að þetta hafi verið góður endir fyrir hann,“ sagði Schweinsteiger.

„Ef Mourinho tekur við, held ég að allir leikmennirnir muni vilja æfa fyrir hann og spila þannig að ég held að þetta verðir einstakt tímabil,“ sagði Schweinsteiger að lokum, en útlit er fyrir að Portúgalinn José Mourinho taki við þjálfarastarfinu í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert