Button ýjar að sportbílakappakstri

Jenson Button gæti verið á leið í sportbílakappakstur.
Jenson Button gæti verið á leið í sportbílakappakstur. mbl.is/afp

Jenson Button er farinn að tala eins og hann sé að missa vinnuna hjá McLaren. Ræðir hann opinskátt þessa dagana að hverfa til keppni í sportbílakappakstri fái hann ekki samkeppnishæfan bíl í formúlu-1 á næsta ári.

Þegar aðeins þrjú mót af 19 eru eftir hefur McLaren ekki enn ákveðið hverjir keppa fyrir liðið á næsta ári.Gengið hefur fjöllum hærra lengi að Fernando Alonso sé á leið til þess og sé það rétt mun annað hvort Button eða Kevin Magnussen þurfa víkja sæti.

Umboðsmaður Buttons segir að hinn 34 ára gamli ökumaður sé í fullu formi og einstaklega mikill keppnismaður. Því vilji hann halda áfram kappakstri, en Button á að baki 263 mót í formúlu-1

„McLaren eru enn óvissir hvað þeir gera varðandi ökumenn. Jenson er of góður til að hanga aftarlega á rásmarkinu í formúlu-1 [í ósamkeppnisfærum bíl]. Því er um tvennt að velja, almennilegur bíll í formúlu-1 eða hann hverfur annað,“ segir Richard Goddard, umboðsmaður Buttons.

Mun hann þegar hafa átt í viðræðum við Porsche um að keppa fyrir það í Le Mans-mótaröðinni og heimsmeistarakeppninni í þolakstri. Þar er fyrir í rúmi gamall keppinautur hans úr formúlunni, Mark Webber.

Button er reynslumesti ökumaðurinn í hópi núverandi keppenda í formúlu-1. Fyrir utan að hafa keppt í 263 mótum hefur hann 15 sinnum staðið á efsta þrepi verðlaunapallsins og árið 2009 varð hann heimsmeistari ökumanna.

Jenson Button á ferð í rússneska kappakstrinum.
Jenson Button á ferð í rússneska kappakstrinum. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert