Sektaður fyrir að fagna með ömmu

Alessandro Florenzi faðmar ömmu sína að sér eftir að hafa …
Alessandro Florenzi faðmar ömmu sína að sér eftir að hafa skorað mark fyrir Roma í gær gegn Cagliari. AFP

Alessandro Florenzi, miðvallarleikmaður Roma, verður sektaður af félagi sínu eftir að hann fór upp í áhorfendastúku og faðmað að sér ömmu sína eftir að hafa skorað annað mark Roma gegn Cagliari á heimavelli.

Florenzi, sem er 23 ára gamall, fékk gult spjald frá dómara leiksins fyrir að yfirgefa leikvanginn og fara upp í stúku eftir að hafa skorað markið. Þar af leiðandi á hann von á sekt frá félaginu sínu sem hefur þær reglur að leikmenn eru sektaðir fyrir öll „óþarfa“ spjöld í kappleikjum liðsins. 

„Þetta var í fyrsta skipti sem amma mín kemur á kappleik með mér," sagði Florenzi við ítalska fjölmiðla eftir leikinn. „Hún kom ekki einu sinni á leiki með mér þegar ég var barn eða unglingur. Eftir að ég var ekki valinn í ítalska landsliðið á dögunum þá sagði amma mér að hún myndi koma á næsta heimaleik minn með Roma," sagði Florenzi ennfremur. Amman er 82 ára gömul

Rudi Garcia, þjálfari Roma, staðfesti að Florenzi verði sektaður af félaginu en bætti við. „Hann greiðir sektina með bros á vör.“ Ekki fylgir sögunni hversu há sekt Florenzi verður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert