Gylfi fær mikið lof í breskum miðlum

Gylfa er fagnað af liðsfélögum sínum.
Gylfa er fagnað af liðsfélögum sínum. Ljósmynd/Heimasíða-Everton

Það hefur eflaust ekki farið framhjá mörgum að Gylfi Þór Sigurðsson skoraði stórkostlegt mark í 1:1-jafntefli Everton gegn Hajduk Split í Evrópudeildinni í knattspyrnu í kvöld. Miðlar á Bretlandi eru á einu máli um að Gylfi hafi verið maður leiksins og átti hann virkilega góðan leik. 

Sky Sports - 9: Það verður munað eftir þessum leik vegna heimsklassaafgreiðslu Gylfa, sem var maður leiksins. Hann spilaði mjög vel fyrir aftan Wayne Rooney, sem var einnig góður, og er Ronald Koeman eflaust ánægður með þá. 

Liverpool Echo - 9: Gylfi gerði vel áður en hann skoraði markið. Hann pressaði og hélt boltanum vel og virðist smellpassa í liðið. Hann skoraði svo besta mark sem munað er eftir hjá nýjum leikmanni Everton og gerði hann leikinn þægilegri fyrir liðið. Þetta gleymist seint, vá.

Mirror - 8: Maður leiksins. Hann skoraði stórkostlegt mark í fyrsta byrjunarliðsleiknum. 

Twittersíða Everton gaf svo stuðningsmönnum færi á að velja sinn mann leiksins. Fjórir leikmenn komu til greina. Þegar þessi frétt er skrifuð er Gylfi með 442 atkvæði, Leighton Baines 43, Ashley Williams 17 og Wayne Rooney með 57. Gylfi er því með yfirburði í vali á besta manni leiksins af stuðningsmönnum Everton. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert