„Betra en ég bjóst við“

Kolbeinn Höður Gunnarsson
Kolbeinn Höður Gunnarsson mbl.is/Árni Sæberg

Akureyringurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson tryggði sér tvenn gullverðlaun í spretthlaupum á Smáþjóðaleikunum í San Marínó í dag. Kolbeinn sigraði í 200 metra hlaupi á góðum tíma og var í sveit Íslands sem sigraði í 4x100 metra boðhlaupi. 

„Ég kem beint úr lokamótinu í minni deild í Ameríku. Ég fór í átján tíma ferðalag hingað og kom á mánudaginn. Ég hjóp 100 metrana á þriðjudaginn, hvíldi miðvikudag, hljóp undanúrslit í 200 metrunum á fimmtudag, frí í gær og svo úrslit í 200 í dag. Ég er orðinn mjög þreyttur en náði að kreista út að ég held minn þriðja besta tíma á ferlinum. Það er miklu betra en ég bjóst við,“ sagði Kolbeinn Höður Gunnarsson þegar mbl.is tók hann tali í San Marínó í dag.

Kolbeinn var í hörkuformi í Bandaríkjunum í vetur og sló Íslandsmetið í 200 metrunum á háskólamóti. Hann kann vel við sig í hitanum og hljóp í dag á 21,20 sekúndum. Ari Bragi Kárason fékk brons á 21,78 sekúndum og hann var einnig í sigursveitinni í 4x100. 

„Mér finnst frábært að hlaupa í hitanum. Það má kannski segja að hér sé aðeins kaldara en verið hefur úti. Er það aðeins þægilegra því hitinn getur orðið óbærilegur í suðrinu í Bandaríkjunum,“ sagði Kolbeinn en tæplega 30 stiga hiti er í San Marínó í dag.

Kolbeinn Höður annar frá hægri á fleygiferð í San Marínó.
Kolbeinn Höður annar frá hægri á fleygiferð í San Marínó. Ljósmynd/GSSE
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert