Alltaf hiti og tilfinningar í úrslitakeppninni

Baltasar Hjálmarsson, leikmaður SA, með pökkinn í kvöld. Jonathan Otuoma, …
Baltasar Hjálmarsson, leikmaður SA, með pökkinn í kvöld. Jonathan Otuoma, leikmaður SR, sækir að honum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Axel Orongan var að öðrum ólöstuðum maður leiksins þegar SR lagði SA, 5:3, í fjórða leik úrslitaeinvígis Íslandsmóts karla í íshokkí. Með sigrinum jafnaði SR metin í einvíginu og tryggði sér um leið oddaleik á Akureyri á fimmtudag.

„Adrenalínið er bara enn í botni. Þetta var flottur liðssigur. Þetta hefur verið mjög jafnt einvígi, fyrir utan síðasta leik á Akureyri þannig að þetta var gaman.“

SR leiddi með einu marki síðasta korter leiksins eftir að Jóhann Leifsson hafði minnkað muninn fyrir Akureyringa. Þegar um tíu sekúndur voru eftir náði Axel að stela pekkinum og skora í opið mark, en SA hafði tekið markvörð sinn af velli til að freista þess að jafna. Var það annað mark Axels í leiknum.

„Eina sem ég hugsaði um var að setja pökkinn í markið og klára þennan leik. Ég veit ekki alveg hvað gerðist hjá honum, hann var eitthvað aðeins að detta þannig ég nýtti það og lét vaða á hann.“

Axel er uppalinn á Akureyri og fór upp í gegnum yngri flokka SA. Hann fagnaði með því að sussa á stuðningsmenn Norðanmanna eftir að hafa skorað sigurmark leiksins.

„Það er náttúrlega alltaf gaman að vinna hokkíleiki en jú jú, ef það er á móti SA er það kannski extra gaman.“

Einvígi þessara liða í úrslitakeppninni undanfarin ár hafa einkennst af miklum hita og baráttu leikmanna innan vallar. Þar var engin breyting á í kvöld en bæði lið fengu fjölmargar brottvísanir.

„Algjörlega. Þetta er úrslitakeppnin og við erum að spila upp á bikarinn þannig að það er hiti og tilfinningar í þessu. Betra liðið vinnur svo að lokum.“

Axel segist þrátt fyrir allar brottvísanir SR-liðsins hafa reynt að pirra sig ekki á ákvörðunum dómaranna í leiknum.

„Ég veit ekki alveg hvað var í gangi þarna hjá þeim. Þegar ég fer út af reyni ég bara að einbeita mér að sjálfum mér en svo var bara alltaf verið að flauta og senda einhvern í boxið. Við megum ekki vera að einbeita okkur of mikið að því heldur verðum við bara að spila okkar leik.“

Eins og áður kom fram tryggði SR sér hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn með sigrinum í kvöld en hann fer fram á Akureyri á fimmtudaginn. Það sama gerðist í fyrra en þá vann SR einmitt oddaleik gegn SA á Akureyri og tryggði sér titilinn.

„Við gerum allavega okkar allra besta, það er 100%. Þetta verður hörkuleikur og það verður örugglega stútfull höll. Þetta verður skemmtilegt.“

Axel Orongan, leikmaður SR.
Axel Orongan, leikmaður SR. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert