Bjóst ekki við því að gráta

Jason Day.
Jason Day. AFP

Jason Day spilaði gjörsamlega frábært golf á lokadegi PGA-meistaramótsins í golfi sem fram fór á Whistling Straits vellinum í Wisconsin í Bandaríkjunum. Day lék lokahringinn á 67 höggum og var samtals á -20 höggum undir pari eftir hringina fjóra en það er met á risamóti í golfi.

Day hafði fyrir gærdaginn aldrei unnið risamót í golfi og hafði níu sinnum endað í einu af tíu efstu sætum risamóts en alltaf virtist stressið fara með kappann á lokasprettinum.

Day gerði hins vegar engin mistök í gær og hélt út - þrátt fyrir þunga pressu frá Jordan Spieth sem hefur unnið tvo risamót á árinu.

Það sást líka hversu miklu máli sigurinn skipti fyrir Day. Hann andaði djúpt fyrir hvert einasta högg á lokaholunum og þegar hann hafði komið kúlu sinni nánast upp að holunni í löngu pútti á 18. flöt brast kappinn í grát.

Spurður að því hvernig hann hafi ímyndað sér þessa sigurstund sagði Day.

„Ég bjóst ekki við því að fara að gráta,“ sagði Day sem fagnaði sigrinum ásamt konu sinni og barni.

„Að hafa getað spilað eins og ég gerði í dag, sérstaklega þar sem Jordan var með mér í ráshópi, ég gat séð að hann var líklegustur. En bara að geta klárað hringinn á þann hátt sem ég gerði er ótrúlegt,“ sagði Day.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert